Frétt

Landsvirkjun gefur út græn skuldabréf á Bandaríkjamarkaði

9. mars 2018

Landsvirkjun hefur samið við bandaríska og breska fagfjárfesta um útgáfu grænna skuldabréfa gegnum lokað skuldabréfaútboð á Bandaríkjamarkaði (e. US private placement) að fjárhæð samtals 200 milljónir Bandaríkjadala, eða að jafnvirði um 20 milljarða íslenskra króna. Bréfin, sem gefin voru út í dag, eru án ríkisábyrgðar og tengjast framkvæmdum við Þeistareykjavirkjun og Búrfell II. Sem fyrr gera áætlanir Landsvirkjunar ráð fyrir að nettó skuldir fyrirtækisins muni lækka á árinu.

Upphaflega var stefnt að skuldabréfaútgáfu fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, en útgáfunni var mjög vel tekið og bárust tilboð fyrir yfir 700 milljónir Bandaríkjadala eða sem samsvarar um sjöfaldri eftirspurn. Bréfin eru á gjalddaga eftir 4, 5, 7 og 10 ár og bera 4,14% vegna meðalvexti með vaxtagreiðslum á sex mánaða fresti.

Landsvirkjun, sem vinnur orku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum, hefur útbúið grænan ramma um skuldabréf (e. green bond framework) samkvæmt viðmiðum ICMA (e. International Capital Market Association) um græn skuldabréf. Andvirði útgáfunnar verður ráðstafað til verkefna í orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum sem hafa jákvæð umhverfisáhrif.

Fyrsta íslenska græna skuldabréfaútgáfan

Landsvirkjun er fyrsti útgefandi grænna skuldabréfa á Íslandi. Þá er útgáfan með fyrstu grænu skuldabréfunum sem orkufyrirtæki gefur út í gegnum lokað skuldabréfútboð á bandaríska skuldabréfamarkaðnum og einnig með fyrstu grænu skuldabréfunum sem gefin eru út á þeim markaði, en búist er við að sá markaður muni stækka á næstu árum.

Umsjónaraðilar með skuldabréfaútgáfunni voru fjármálafyrirtækin Barclays og Citi.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Loftslags- og umhverfismál eru á meðal mikilvægustu viðfangsefna okkar um þessar mundir og það er ánægjulegt að komið sé fjármögnunarumhverfi sem hvetur til góðrar frammistöðu í þeim efnum og samfélagslegrar ábyrgðar. Við erum stolt af því að styðja við græn skuldabréf og vera fyrsti útgefandi þeirra hér á landi. Með skuldabréfaútgáfunni, sem er án ríkisábyrgðar, lengir Landsvirkjun endurgreiðsluferil lána í hagstæðu vaxtaumhverfi. Þetta er í fyrsta sinn sem Landsvirkjun gefur út græn skuldabréf í Bandaríkjunum og útgáfan stækkar hóp lánveitenda Landsvirkjunar.“

Græn skuldabréf

Við útgáfu grænna skuldabréfa fær útgefandi lán frá fjárfestum þar sem þriðji aðili vottar að andvirði skuldabréfsins verði ráðstafað í verkefni sem hafa jákvæð umhverfisáhrif, svo sem til endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orkuvinnslu.

Fréttasafn Prenta