Frétt

Landsvirkjun gerist bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags

29. október 2015
Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Sverrir Kristinsson framkvæmdastjóri HÍB, Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jón Sigurðsson forseti HÍB, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Í dag var undirritaður samstarfssamningur milli Landsvirkjunar og Hins íslenska bókmenntafélags um að Landsvirkjun gerist bakhjarl félagsins. Stjórnarformaður og forstjóri Landsvirkjunar afhentu Bókmenntafélaginu við undirritun samningsins styrk að fjárhæð 20 milljónir króna vegna tveggja alda afmælis bókmenntafélagsins árið 2016. Styrkurinn verður greiddur með tveimur jöfnum greiðslum; hin fyrri á þessu ári en hin síðari á því næsta.

Stjórn Landsvirkjunar tók ákvörðun um samninginn á sérstökum afmælisfundi í júlímánuði síðastliðnum í tilefni af því að Landsvirkjun heldur upp á 50 ára afmæli sitt á þessu ári. Hið íslenska bókmenntafélag hyggst halda upp á tveggja alda afmælið á næsta ári með veglegri afmælishátíð og viðburðum sem verða kynntir nánar síðar. Í tilefni af undirritun samstarfssamningsins lásu Einar Kárason, rithöfundur, og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, upp brot úr greinum sínum sem birst hafa í Skírni. Bókmenntafélagið hóf útgáfu Skírnis á árinu 1827 sem er elsta tímarit á íslensku og eitt elsta menningartímarit á Norðurlöndum sem komið hefur samfellt út frá stofnun.

Hið íslenska bókmenntafélag

Hið íslenska bókmenntafélag var stofnað árið 1816 og tók við hlutverki Hins íslenska lærdómslistafélags sem stofnað var 1779. Félagið hefur því starfað í nær tvær aldir. Tilgangur félagsins er að styðja og styrkja íslenska tungu, bókvísi og menntun og heiður hinnar íslensku þjóðar, bæði með bókum og öðru eftir því sem efni þess fremst leyfa. Bókmenntafélagið hefur staðið fyrir bókaútgáfu sem er fremur fallin til menningarauka en efnalegs ábata. Félagið er útgefandi Skírnis, Tímarits bókmenntafélagsins, og Lærdómsrita bókmenntafélagsins auk fjölmargra bóka á ýmsum sviðum menningar og fræða í samræmi við tilgang félagsins. Á 19. öld gegndi Skírnir einkum hlutverki fréttablaðs, meðal annars erlendra frétta, en á fyrstu árum 20. aldar urðu viðfangsefni á sviði íslenskra bókmennta og menningarsögu stöðugt mikilvægari á síðum Skírnis og er svo enn í dag. Félagið hefur alla tíð lagt sérstaklega rækt við sögu landsins, tungu þess og bókmenntir og jafnframt að tengja Íslendinga við hið besta í menntun og vísindum með öðrum þjóðum.

Jón Sigurðsson, forseti Hins íslenska bókmenntafélags, tók á móti styrknum og sagði af því tilefni:

„Það er einstaklega ánægjulegt að félaginu hefur hlotnast þessi rausnarlegi styrkur frá Landsvirkjun. Hann gerir félaginu kleift að fagna tveggja alda afmæli sínu á næsta ári með myndarlegum hætti, ekki síst með öflugu útgáfustarfi, og hefja þannig þriðju starfsöldina. Bókmenntafélagið kann Landsvirkjun bestu þakkir fyrir veittan stuðning“.

 

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, sagði við afhendingu styrksins að Landsvirkjun væri stolt af því að geta lagt félaginu lið í undirbúningi fyrir afmælisár félagsins. Félögin hafa átt gott samstarf í gegnum árin en bókmenntafélagið gaf meðal annars út 40 ára afmælisrit Landsvirkjunar árið 2005.

„Félagið hefur gegnt mikilvægu menningarlegu hlutverki frá stofnun þess árið 1816 með útgáfu á fræði-, forn- og menningarritum og stutt á þann hátt við sagnfræði og varðveislu íslenskrar tungu. Landsvirkjun er heiður að því að stuðla að varðveislu og ávöxtun þess menningararfs sem fólginn er í starfsemi Bókmenntafélagsins“, sagði Jónas Þór enn fremur.

Fréttasafn Prenta