Frétt

Landsvirkjun hlýtur gull í jafnlaunaúttekt PwC annað árið í röð

15. júní 2015

Það er stefna Landsvirkjunar að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig förum við ekki aðeins að lögum heldur nýtum jafnframt mannauð fyrirtækisins á sem árangursríkastan hátt.

Við óskum landsmönnum hjartanlega til hamingju með 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og hvetjum alla okkar starfsmenn til að taka þátt í skipulögðum hátíðarhöldum.

Tryggjum jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf

Landsvirkjun hefur unnið markvisst að því að tryggja jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf. Á síðastliðnu ári fékk fyrirtækið gullmerki PwC í fyrsta sinn og hefur nú staðfest öðru sinni að launamunur kynjanna er innan viðmiða PwC.

Munur á grunnlaunum karla og kvenna mælist nú 0,1% sem er minnsti munur sem PwC hefur mælt í úttektum sínum hjá íslenskum fyrirtækjum. Á síðustu þremur árum hefur launamunur kynjanna á grunnlaunum lækkað úr 1,5% í 0,1%.

Úttektin sýnir mun á  heildarlaunum upp á 2,8%, en heildarlaun eru grunnlaun að viðbættum öðrum greiðslum svo sem vegna yfirvinnu. Munur á heildarlaunum hefur á undanförnum ellefu árum lækkað úr 12% í 2,8%. Gætir þar áhrifa af því að stór hópur starfsmanna er í vaktavinnu við rekstur aflstöðva fyrirtækisins.

Endurskoðun jafnréttisstefnu Landsvirkjunar og gerð nýrrar framkvæmdaáætlunar jafnréttismála

Landsvirkjun vinnur markvisst að því að auka hlutfall kvenna hjá fyrirtækinu. Árið 2014 setti fyrirtækið sér það markmið að auka hlutfall kvenkyns stjórnenda úr 17% í 20% á árinu. Í lok árs 2014 hafði talan hækkað upp í 19% og markmið ársins því ekki náðst, þó hlutfallið hafi hækkað frá því sem var.

Þar sem sett markmið náðist ekki, var tekin ákvörðun um að endurskoða jafnréttisstefnu fyrirtækisins með það að markmiði að greiða frekar fyrir því að auka jafnrétti kynja í störfum innan fyrirtækisins. Afrakstur verkefnisins verður endurskoðuð jafnréttisstefna og framkvæmdaáætlun jafnréttismála sem tryggir eftirfylgni stefnunnar.

Nánar má kynna sér markmiðasetningu tengda jafnrétti undir markmiðasetningu samfélagsábyrgðar.

Fréttasafn Prenta