Frétt

Landsvirkjun hlýtur gullmerkið í jafnlaunaúttekt PwC

16. október 2013

Launamunur kynjanna hjá Landsvirkjun fer úr 12,0% í 1,6% á tíu árum

Launamunur kynjanna hjá Landsvirkjun er aðeins 1,6% samkvæmt jafnlaunaúttekt PwC. Konur hafa að jafnaði örlítið hærri föst laun en karlar, á meðan heildarlaun karla eru ögn hærri. Munurinn er langt innan þeirra 3,5% marka sem krafist er til að fyrirtækið hljóti gullmerkið í jafnlaunaúttekt PwC.

Undanfarin ár hafa verið gerðar úttektir á launum og kjörum hjá Landsvirkjun í því skyni að vinna gegn kynbundnum launamun. Þegar launamunur kynjanna var fyrst metinn hjá Landsvirkjun árið 2003 var hann 12% körlum í vil og nú 10 árum síðar er munurinn aðeins 1,6%.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Við erum stolt af þessum árangri og vinnum áfram að því að bjóða konum jafnt sem körlum samkeppnishæft og gefandi starfsumhverfi.“

Landsvirkjun tók þá ákvörðun að stefna að gullmerki í jafnlaunaúttekt PwC á árinu 2013. Samkvæmt úttektinni eru grunnlaun kvenna 0,8% hærri en grunnlaun karla en með grunnlaunum er átt við laun sem greidd eru fyrir fullt starf. Föst laun kvenna eru 2,3% hærri en föst laun karla en það eru full mánaðarlaun auk fastra aukagreiðslna. Heildarlaun karla eru hinsvegar 1,6% hærri en heildarlaun kvenna en heildarlaun eru föst laun að viðbættum aukagreiðslum t.d. vegna yfirvinnu.

Lítill launamunur afrakstur sterkrar jafnréttisstefnu

Afrakstur jafnréttisstefnu Landsvirkjunar hefur borið árangur og á undanförnum árum hefur konum einnig fjölgað í stjórnunar- og sérfræðistörfum hjá Landsvirkjun.

Stefna Landvirkjunar er að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsfólk njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Þannig fer Landsvirkjun ekki aðeins að lögum heldur nýtir jafnframt mannauð fyrirtækisins á sem árangursríkastan hátt.

Í þessu augnamiði leitast Landsvirkjun meðal annars við að jafna kynjahlutföll innan hinna ýmsu starfa fyrirtækisins. Gætt er að jafnrétti hvað varðar ábyrgð og þátttöku starfsfólks í starfshópum, stjórnum og nefndum, auk þess sem Landsvirkjun greiðir jöfn laun og veitir sömu kjör fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Landsvirkjun skuldbatt sig jafnframt til að vinna að jafnréttismálum með undirritun jafnréttissáttmála UN Women árið 2011.

Nánar um starfsmannastefnu og jafnréttisstefnu Landsvirkjunar

Fréttasafn Prenta