Frétt

Landsvirkjun kynnir siðareglur birgja og þjónustuaðila

2. nóvember 2015

Landsvirkjun hefur samþykkt og hafið innleiðingu á siðareglum fyrir birgja og þjónustuaðila. Reglurnar innihalda viðmið um barnavinnu, nauðungarvinnu, bann við mismunun, umhverfi, hagsmunaárekstra, siðferði í viðskiptum og fleira. Gert er ráð fyrir að innleiða reglurnar í framhaldinu í samninga, útboðsskilmála og birgja- og frammistöðumat.

Landsvirkjun setti siðareglur fyrir eigið starfsfólk í desember 2013. Í kjölfarið var hafin vinna við að semja siðareglur fyrir birgja og þjónustuaðila og voru þær samþykktar í janúar 2015. Markmið reglnanna er að fyrir liggi skýrar leiðbeiningar til birgja og þjónustuaðila Landsvirkjunar um til hvers er ætlast til þeirra með tilliti til heilbrigðra starfs- og stjórnarhátta.

Reglurnar taka mið af UN Global Compact

Við gerð siðareglna birgja var tekið mið af siðareglum starfsmanna Landsvirkjunar og tekið mið af viðmiðum sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (UN Global Compact) en með aðild að þeim hefur Landsvirkjun skuldbundið sig til að virða og innleiða tíu reglur um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu.

Siðareglur Landsvirkjunar fyrir birgja- og þjónustuaðila skiptast í níu greinar sem taka á barnavinnu, launum og launakjörum, nauðungarvinnum, félagafrelsi og rétti starfsfólks til kjarasamninga, banni við mismunun, heilsu og öryggi, umhverfi, siðferði í viðskiptum og hagsmunaárekstrum.

Hægt er að kynna sér reglurnar á vef Landsvirkjunar, sjá Siðareglur birgja Landsvirkjunar

Fréttasafn Prenta