Frétt

Landsvirkjun og DSD NOELL GmbH undirrita samning vegna stækkunar á Búrfellsvirkjun

16. mars 2016
Hörður Arnarson og Gereon Eiling skrifuðu undir samninginn.

Landsvirkjun og DSD NOELL GmbH undirrituðu í dag verksamning um lokur og fallpípur í tengslum við framkvæmdir á stækkun Búrfellsvirkjunar. Heildarfjárhæð samnings er um 1,2 milljarðar íslenskra króna.

Verkið felst í deilihönnun, framleiðslu, flutningi, uppsetningu og prófunum á ristum, lokum og tilheyrandi búnaði í inntaksmannvirki virkjunarinnar, frávatnslokum ásamt tilheyrandi búnaði, fallpípu og hljóðbylgjurennslismæli.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Það er ánægjulegt að hafa náð samningum við þennan öfluga aðila, sem við höfum átt gott samstarf við áður. Stækkun Búrfellsvirkjunar er mikilvæg framkvæmd, sem gerir okkur kleift að nýta auðlindina betur og koma til móts við þá auknu eftirspurn sem við finnum fyrir, frá fjölbreyttri atvinnustarfsemi.“

Gereon Eiling, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá DSD NOELL GmbH:

„Það er mjög ánægjulegt að snúa aftur til Íslands, eftir að hafa lokið við stórt verkefni tengt Kárahnjúkavirkjun fyrir nokkrum árum. Það er okkur mikil ánægja að vinna fyrir Landsvirkjun á ný.“

Um framkvæmdina

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar munu hefjast í vor og er áætlað að gangsetja virkjunina í lok apríl 2018. Uppsett afl nýrrar stöðvar verður 100 MW með einni vél, en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW.

Með stækkun Búrfellsvirkjunar má auka orkugetu raforkukerfisins um allt að 300 GWst á ári. Stækkunin mun nýta vatn sem í dag rennur framhjá núverandi stöð. Stækkuð Búrfellsvirkjun mun auka rekstraröryggi og sveigjanleika raforkukerfisins.

Nánari upplýsingar um stækkun Búrfellsvirkjunar er að finna hér:

Frétt: Landsvirkjun stækkar Búrfellsvirkjun um 100 MW

http://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/landsvirkjun-staekkar-burfellsvirkjun-um-100-mw/

Frétt: Útboð í byggingarvinnu stækkaðrar Búrfellsvirkjunar auglýst

http://www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/frettir/frett/utbod-i-byggingarvinnu-staekkadrar-burfellsvirkjunar-auglyst/

Vefsvæði stækkunar Búrfellsvirkjunar

http://www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Virkjunarkostir/staekkun-burfellsvirkjunar

Fréttasafn Prenta