Frétt

Landsvirkjun og Hagfræðistofnun vinna saman að þekkingaruppbyggingu

24. október 2013

Landsvirkjun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman í þeim tilgangi að efla rannsóknir sem snúa að viðskipta- og hagfræðilegum þáttum orkuvinnslu. Markmiðið er að efla fræðilegar rannsóknir á þessum þáttum orkuvinnslunnar og auka þannig þekkingu og almennan skilning á áhrifum hennar á efnahagslífið.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Með samstarfinu viljum við leggja okkar af mörkum til að stuðla að uppbyggingu þekkingar og faglegri umræðu um orkumál og orkumarkaði.“

Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar: „Við fögnum þessu samstarfi sem gerir okkur kleift að efla rannsóknir og byggja upp og miðla þekkingu á þessu mikilvæga sviði sem snertir þjóðarhag.“

Í samræmi við samstarfssamning sem undirritaður var í dag mun Landsvirkjun styrkja rannsóknarstarf á vegum Hagfræðistofnunar um 8 milljónir króna á ári í þrjú ár eða í heild um 24 milljónir á samningstímanum. Hagfræðistofnun leggur til eitt stöðugildi sérfræðings í orkuhagfræði sem mun einbeita sér að rannsóknum á sviðinu og að þeim verkefnum sem ákvörðuð eru innan samstarfsins.

Markmið Landsvirkjunar er að stuðla að faglegri umræðu um orkumál auk þess að skapa virði fyrir atvinnulíf og samfélag með því að deila þekkingu og stuðla að nýsköpun. Samstarfssamningur sem þessi styður við gildandi stefnu Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð sem felst í að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins.

Fréttasafn Prenta