Frétt

Landsvirkjun og Hreyfill í samstarf um vistvænar samgöngur

28. janúar 2016

Vistvænar samgöngur hluti af samfélagsábyrgðarstefnu fyrirtækisins

Landsvirkjun hefur gert samkomulag við Hreyfil sem miðar að því að auka hlut vistvænna samgangna í starfsemi fyrirtækisins. Vistvænir leigubílar eru nú nýttir til að þjónusta Landsvirkjun.

Framþróun opnar möguleika fyrir vistvænar samgöngur

Með stigvaxandi framþróun á bílum og eldsneytisgjöfum opnast nýir möguleikar fyrir fyrirtæki til þess að nota vistvænni kosti í samgöngum.

40 bílar, eða 11%, af bílaflota Hreyfils teljast til A-flokks en bílar í þeim flokki losa minna en 120 grömm af koltvísýringi á ekinn kílómetra. Í dag nýtir Hreyfill þessa bíla þegar leigubílapöntun er gerð á vegum Landsvirkjunar. Vistvænir bílar Hreyfils eru eyðslugrannir díselbílar, 13 metanbílar og einn hybrid rafbíll.

Vistvænar samgöngur hluti af samfélagsábyrgðarstefnu Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur sett sér samgöngustefnu, sem er hluti af samfélagsábyrgðarstefnu fyrirtækisins. Í samgöngustefnunni er lögð áhersla á minni notkun jarðefnaeldsneytis og virka þátttöku fyrirtækisins í þróun orkuskipta á Íslandi.

Við endurnýjun bíla í eigu Landsvirkjunar er ávallt skoðað hvort rafbíll geti hentað og leitast við að skipta jarðefnaeldsneytisbílum fyrir rafbíla í þeim tilvikum sem það er mögulegt. Í dag eru hreinir rafbílar í bílaflota Landsvirkjunar sex talsins, auk tveggja tvíorkubíla og er reynslan af öllum bílunum góð.

Á árinu 2016 munum við halda áfram með verkefni sem stuðla að minni losun koltvísýrings vegna samgangna fyrirtækisins og starfsmanna þess, auk þess sem við munum horfa til þess hvernig við sem fyrirtæki getum hvatt önnur fyrirtæki og einstaklinga til þess að taka virkan þátt í orkuskiptum.

Fréttasafn Prenta