Frétt

Landsvirkjun og Reykjavík DC gera grænan rafmagnssamning

18. desember 2019
Fulltrúar samningsaðila eftir undirritun í Landsvirkjun. Frá vinstri: Sævar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri Korputorgs, Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og sölu Landsvirkjunar, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Gísli Valur Guðjónsson, stjórnarformaður Opinna Kerfa og Reykjavík DC, Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar og Kjartan Briem, framkvæmdastjóri tækni og innviða hjá Sýn.

Allt að 12 MW fyrir nýtt hátæknigagnaver við Korputorg

Landsvirkjun og Reykjavík DC, nýtt hátæknigagnaver í Reykjavík í eigu Opinna Kerfa, Sýnar, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs, hafa undirritað grænan rafmagnssamning um afhendingu á allt að 12 MW til nýs gagnavers við Korputorg í Reykjavík. Gagnaverið hefur rekstur snemma árs 2020. Reykjavík DC verður fjórði viðskiptavinur Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði, enda henta aðstæður á Íslandi sérstaklega vel fyrir rekstur gagnavera.

Fyrsta hátæknigagnaverið í Reykjavík

Að baki Reykjavík DC standa innlendir aðilar með víðtæka reynslu og þekkingu á rekstri upplýsingatæknikerfa, fjarskipta, fasteigna og alþjóðaviðskipta. Sérhæfing Reykjavík DC snýr að öryggis- og umhverfismálum. Gagnaverið nýtir rafmagn úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum og uppfyllir Tier3-staðal. Reykjavík DC mun bjóða sambærilega þjónustu við það sem best gerist í heiminum og fullnægja ströngustu kröfum. Þjónusta gagnaversins verður sniðin að þörfum innlendra og erlendra viðskiptavina sem kjósa gæði og öryggi.

Vottaður grænn rafmagnssamningur (e. Green PPA)

Samningurinn verður vottaður sem grænn rafmagnssamningur (e. corporate green power purchase agreement) og með raforkusölunni fylgja upprunaábyrgðir sem staðfesta að orkan er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Vaxandi fjöldi vottaðra grænna rafmagnssamninga stórra raforkukaupenda, svo sem leiðandi gagnaversfyrirtækja í Evrópu og Norður Ameríku, er merki um vaxandi áherslu á loftslagsmál og sjálfbærni. Fyrirtæki sem eru meðvituð um hlutverk endurnýjanlegrar orku í baráttu við loftslagsbreytingar leggja í auknum mæli áherslu á að fá hana vottaða sem slíka og greiða fyrir það sérstaklega.

Ísland samkeppnishæft og ákjósanlegt fyrir gagnaver

Mikil sóknarfæri eru í gagnaversiðnaði sem er sá iðnaður í heiminum sem vex einna örast. Endurnýjanleg orka, samkeppnishæft verð í langtímasamningum, afhendingaröryggi og íslenskt veðurlag eiga þátt í að skapa afar hagstætt rekstrarumhverfi fyrir ört vaxandi gagnaversiðnað á Íslandi. Svalt og stöðugt loftslag dregur úr kostnaði við kælingu á tölvubúnaði sem hitnar mikið við notkun. Loftkælingin kemur í veg fyrir að eyða þurfi mikilli orku í að kæla búnaðinn og því er hagkvæmara og umhverfisvænna að knýja hann á Íslandi en víða annars staðar í heiminum. 

Orka úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum

Rafmagnið sem samningurinn nær til verður afhent úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar en fyrirtækið hefur á undanförnum árum aukið umtalsvert við vinnslugetu sína með nýjum aflstöðvum sem vinna orku úr 100% endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðvarma og vindorku.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Við bjóðum Reykjavík DC velkomið í hóp fjölbreyttra viðskiptavina okkar. Samstarfið við þennan öfluga hóp hefur verið farsælt og með samningnum heldur gagnaversiðnaðurinn á Íslandi áfram að vaxa enda eru hér góðar aðstæður til að reka gagnaver. Samningurinn við Reykjavík DC staðfestir enn á ný eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku frá Landsvirkjun og samkeppnishæfni Íslands fyrir rekstur gagnavera og orkusækinn iðnað.“

Gísli Valur Guðjónsson, stjórnarformaður Reykjavík DC:

„Gagnaverið uppfyllir öryggisstaðla kröfuhörðustu viðskiptavina. Staðsetningin er eins og best verður á kosið, með góðum tengingum við orkukerfið og samgönguleiðir, en líka með tilliti til hættu af náttúruhamförum. Fyrirtækin sem standa að gagnaverinu hafa sterka stöðu á íslenska markaðnum og það skapar festu. Samningurinn við Landsvirkjun er mikilvægur áfangi á leið okkar. Lengi hefur verið beðið eftir háþróuðu gagnaveri miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og nú er það að verða að veruleika. Við teljum okkur í góðri aðstöðu til að laða að nýja viðskiptavini hér heima og erlendis.“

Fréttasafn Prenta