Frétt

Landsvirkjun og skátar skrifa undir samstarfssamning

19. desember 2016
Myndin var tekin við undirritun samningsins á dögunum. Frá vinstri: Bragi Björnsson skátahöfðingi, Guðmundur Finnbogason framkvæmdastjóri Útilífsmiðstöðvarinnar, Einar Mathiesen framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar og Sigurður Guðni Sigurðsson, deildarstjóri hjá Landsvirkjun.

Landsvirkjun og Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn (ÚS) hafa skrifað undir samstarfssamning. Í samningnum felst m.a. að ÚS fær aðstöðu fyrir forstöðumann við Írafossstöð, sem er spölkorn frá Úlfljótsvatni. ÚS rekur umfangsmikla fræðslu um sjálfbæra nýtingu og umgengni um auðlindir Íslands og tekur m.a. að sér samkvæmt samningnum að flétta inn í þá fræðslu upplýsingar um orkuvinnslu Landsvirkjunar.

Skátar og Landsvirkjun hafa átt með sér gott samstarf við Úlfljótsvatn í gegnum árin. Skemmst er að minnast samstarfs um sýninguna „UNDRALAND – minningar frá Úlfljótsvatni“ sem sett var upp í Ljósafossstöð í tilefni af 100 ára afmæli skátastarfs á Íslandi. Sýningin var sett upp af sjálfboðaliðum úr röðum skáta með stuðningi Landsvirkjunar og var hún opin daglega yfir sumartímann árin 2012 og 2013. Um það bil 7.000 gestir sóttu sýninguna á þessu tímabili og hefur ekki verið sett upp jafn viðamikil sýning um skátastarf hér á landi fyrr né síðar.

Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni er heimili fjölbreyttrar fræðslu fyrir börn og ungmenni bæði innan skátahreyfingarinnar og utan. Þangað koma þúsundir ungmenna á hverju ári til að upplifa náttúru staðarins og taka þátt í fjölbreyttum verkefnum. Sumarbúðir skáta Úlfljótsvatni hófust 1940 og skólabúðir hafa verið reknar þar í aldarfjórðung. Sumarið 2017 mun Úlfljótsvatn taka á móti um 6000 erlendum ungmennum frá yfir 100 löndum sem að taka þátt í stærsta skátamóti sem að haldið hefur verið á Íslandi.

Fréttasafn Prenta