Frétt

Landsvirkjun og United Silicon undirrita raforkusölusamning

19. mars 2014

Landsvirkjun tilkynnti í dag að fyrirtækið hefur undirritað raforkusölusamning við United Silicon hf. Samkvæmt samningnum mun Landsvirkjun útvega rafmagn fyrir kísilmálmverksmiðju sem United Silicon áformar að reisa í Helguvík á suðvesturlandi. Gert er ráð fyrir að verksmiðjan hefji starfsemi á fyrri helmingi ársins 2016 og noti 35 MW af afli.

„Við erum mjög ánægð að ná auknum fjölbreytileika í viðskiptamannahóp okkar og bjóðum United Silicon og kísilmálmiðnaðinn velkominn í viðskipti. Við erum viss um að kísilmálmiðnaður muni dafna á Íslandi til langs tíma þar sem raforka er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Aðstæður henta vel til að orkufrekur iðnaður geti hér náð samkeppnisforskoti í Evrópu og á alþjóðlega vísu,“ sagði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. „Við horfum björtum augum til langtíma samstarfs með United Silicon, sem hefur unnið faglega og ötullega að þessum áfanga, samhliða því að þeir undirbúa og hefja rekstur og þróa áfram möguleika hans.“  

„United Silicon hefur síðastliðið ár metið nokkrar mögulegar staðsetningar um heiminn fyrir uppsetningu og rekstur kísilmálmverksmiðju, meðal annars í Miðausturlöndum og Malasíu. Við erum ánægð að hafa lokið þeirri vinnu og með endanlegt val okkar að staðsetja okkur á Íslandi þar sem við teljum aðstæður mjög góðar til að byggja og reka kísilmálmverksmiðju. Við höfum notið góðs stuðnings frá íslenskum samstarfsaðilum okkar, samfélaginu á Suðurnesjum og annars staðar. Við höfum notið þess að vinna með Landsvirkjum að þessum mikilvæga áfanga að undirrita raforkusamning í dag sem gerði okkur kleift að ákveða endanlega um staðsetningu verkefnisins,“ segir Joseph Dignam, stjórnarmaður í United Silicon.

Samningurinn er gerður með fyrirvörum sem þurfa að vera uppfylltir fyrir maí mánuð.

Um United Silicon hf.

United Silicon hf er nýtt félag stofnað af hópi aðila í evrópska kísilmálmiðnaðinum sem á frumkvæði að því að setja upp nýja kísilmálmverksmiðju til að mæta vaxandi eftirspurn viðskiptavina sinna í Evrópu. Eftir að ákvörðun um að setja upp verksmiðju á Íslandi var tekinn, keypti félagið allt hlutafé í Stakksbraut 9 ehf. sem á lóð í Helguvík og umhverfismat fyrir reksturinn, samþykkt af Skipulagsstofnun í maí 2013. United Silicon hf. stígur með þessu móti inn í fullþróað verkefni og gerir raforkusamningur við Landsvirkjun félaginu kleift að hefja byggingu verksmiðjunnar í sumar. Ráðgjafi United Silicon hf. vegna fjármögnunar verkefnisins er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf. en fyrirhugað er að fjármögnun verði bæði í formi lánveitinga og skuldabréfaútgáfu.

Fréttasafn Prenta