Frétt

Landsvirkjun stofnaðili samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir

28. maí 2019

Landsvirkjun er einn af stofnaðilum samkomulags um samstarfsvettvang stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir, sem var undirritað í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag.

Forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið; Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja standa að samstarfsvettvangnum.

Markmið vettvangsins er að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði. Enn fremur að stjórnvöld og atvinnulíf vinni í sameiningu að metnaðarfullum aðgerðum í loftslagsmálum í samræmi við markmið stjórnvalda, þar með talið kolefnishlutleysi árið 2040.

Í frétt forsætisráðuneytisins um samstarfið segir: „Sérstaða Íslands í loftslagsmálum er fólgin í því að nær öll staðbundin orkuframleiðsla á landinu byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum, hvort sem er til raforkuframleiðslu eða húshitunar. Með samstarfsvettvanginum verður lögð áhersla á að miðla upplýsingum um þann árangur sem náðst hefur hér á landi í áranna rás og þær breytingar sem fram undan eru með þriðju orkuskiptunum. Með orkuskiptum í samgöngum, aukinni kolefnisbindingu og að lokum kolefnishlutleysi getur Ísland orðið fyrirmynd á alþjóðavísu í loftslagsmálum. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman.

Helstu verkefni vettvangsins verða:

  1. Kynning á fjölbreyttu framlagi Íslands til loftslagsmála til þessa sem og markmið og stefnu til framtíðar.
  2. Að tryggja virkt samstarf stjórnvalda og atvinnulífs um aðgerðir í loftslagsmálum, þar með talið um kolefnishlutleysi árið 2040.
  3. Stuðningur við markaðs- og viðskiptaþróunarstarf fyrirtækja tengt loftslagsmálum. Íslenskum lausnum varðandi nýtingu endurnýjanlegrar orku verður meðal annars miðlað og unnið að auknum útflutningi vöru, hugvits og lausna sem byggja á íslenskri orkuþekkingu og grænum lausnum.

Fyrirtækjum, samtökum og stofnunum sem láta sig þessi mál varða er velkomið að gerast aðilar að samstarfsvettvangnum í framhaldinu.“

Hörður Arnarson er í stjórn vettvangsins, en Unnur Brá Konráðsdóttir og Sigurður Hannesson eru formenn. Aðrir stjórnarmenn eru: Árni Bragason, landgræðslustjóri, Diljá Mist Einarsdóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Gestur Pétursson, forstjóri Elkem á Íslandi, Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, Halldór Þorgeirsson, ráðgjafi, Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs. 

Frétt forsætisráðuneytisins.

Fréttasafn Prenta