Frétt

Landsvirkjun stofnuð þennan dag fyrir 50 árum

1. júlí 2015

Gróðursett í Jóhannesarlundi við Búrfellsstöð

Landsvirkjun var stofnuð þennan dag 1. júlí árið 1965, í tengslum við byggingu Búrfellsvirkjunar. Stofnendur og helmingshluthafar voru íslenska ríkið og Reykjavíkurborg en nú er ríkið eini eigandi fyrirtækisins. Búrfellsstöð var fyrsta stórframkvæmd fyrirtækisins og stærsta framkvæmd Íslandssögunnar á þeim tíma. Með byggingu hennar var lagður grunnur að nýjum iðnaði í landinu sem leiddi af sér aukna verkþekkingu og fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi.

Landsvirkjun byggir á traustum grunni. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri íslenskri raforku er orðin meiri en framboð og í því umhverfi hefur góður rekstur skapað tækifæri til að skila arði til eiganda fyrirtækisins. Í dag starfrækir Landsvirkjun 14 vatnsaflsstöðvar og tvær jarðvarmastöðvar á fimm starfssvæðum. Í byggingu er auk þess jarðvarmavirkjun á Þeistareykjum. Þá stendur yfir rannsóknarverkefni með tvær vindmyllur á Hafinu norðan við Búrfell. Hjá Landsvirkjun starfa nú um 250 manns. Sjá nánar um Landsvirkjun í nýjustu rafrænu ársskýrslu fyrirtækisins: arsskyrsla2014.landsvirkjun.is/

Í tilefni af 50 ára afmælinu hefur Landsvirkjun m.a. staðið fyrir opnum fundum um málefni er varða fyrirtækið. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og kalla á opin samskipti við hagsmunaaðila um allt land um málefni sem tengjast starfsemi fyrirtækisins. Fyrir utan opinn ársfund fyrirtækisins í Hörpu 5. maí sl. hafa verið haldnir tveir fundir um loftslagsmál, fundir með íbúum á Norðausturlandi um Þeistareykjavirkjun og á Suðurlandi um stækkun Búrfells. Einnig bauð Landsvirkjun til fundar um þarfir gagnavera í júnímánuði. Aðsókn að fundunum hefur verið mjög góð. Hefur þeim öllum verið streymt beint á vefsíðu Landsvirkjunar,landsvirkjun.is, og er hægt að horfa á upptökur af fundunum á Youtube rás Landsvirkjunar www.youtube.com/landsvirkjun. Í haust verða haldnir fleiri opnir fundir.

Í tilefni af afmælinu mun Landsvirkjun einnig setja upp gagnvirka sýningu um orku og endurnýjanlega orkugjafa í Ljósafossstöð og verður hún opnuð síðar í sumar. Eftir sem áður verða orkusýningar Landsvirkjunar opnar í sumar í gestastofum við Kröflustöð og Búrfellsstöð.

Jóhannes Nordal heiðraður

Fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunar var Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, en hann gegndi því starfi í 30 ár og lét af störfum 30. júní 1995. Til að sýna Jóhannesi þakklæti sitt ákvað starfsfólk Landsvirkjunar að afmarka reit til gróðursetningar við Búrfellsvirkjun og nefna hann Jóhannesarlund. Jóhannesarlundur var vígður á samkomu núverandi og fyrrverandi starfsmanna fyrirtækisins í dag. Á meðfylgjandi mynd eru Jóhannes Nordal, stjórnarformaður Landsvirkjunar 1965-1995 og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar við gróðursetningu fyrsta trésins í Jóhannesarlundi en 50 tré voru gróðursett í lundinum, eitt fyrir hvert starfsár Landsvirkjunar.

Fréttasafn Prenta