Frétt

Landsvirkjun tekur upp innra kolefnisverð

21. ágúst 2019

Landsvirkjun hefur, fyrst íslenskra fyrirtækja, tekið upp innra kolefnisverð í starfsemi sinni. Með því er settur verðmiði á hvert tonn koldíoxíðs (CO2) sem losað er í rekstri fyrirtækisins. Þannig verður kostnaður vegna losunar gróðurhúsalofttegunda sýnilegur þeim sem taka ákvarðanir og beinir því fjárfestingum og ákvörðunum í rekstri að lausnum sem eru umhverfisvænni en ella. Innra kolefnisverðið endurspeglar raunkostnað fyrirtækisins við að ná markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2030.

Árangursrík leið til að minnka losun í heiminum

Ríki heims, stofnanir og fyrirtæki hafa í auknum mæli áttað sig á því að kolefnisverð er ein árangursríkasta leiðin sem völ er á til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Nú hafa yfir 1.300 fyrirtæki á heimsvísu, með sameiginlega veltu upp á 7 þúsund milljarða dollara, tekið upp eða skuldbundið sig til að taka upp innra kolefnisverð innan tveggja ára. Þá stefnir í að 20% af losun gróðurhúsalofttegunda árið 2020 verði tengd verðlagningu kolefnis.

Kolefnishlutleysi fyrir árið 2030

Landsvirkjun leggur áherslu á að lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi sinni. Fyrirtækið vinnur orku úr 100% endurnýjanlegum auðlindum og því losar vinnslan mjög lítið af gróðurhúsalofttegundum á alþjóðlegan mælikvarða og í samanburði við önnur form raforkuvinnslu.

Þrátt fyrir þennan hagstæða samanburð situr Landsvirkjun ekki með hendur í skauti, heldur vinnur fyrirtækið markvisst að því að starfsemin verði kolefnishlutlaus. Ætlunin er að því markmiði verði náð fyrir árið 2030, meðal annars að tilstuðlan innra kolefnisverðs, en einnig er ætlunin að draga úr beinni losun fyrirtækisins á gróðurhúsalofttegundum um 50%. Þar sem fyrirtækið fjárfestir í bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu er möguleiki að Landsvirkjun geri gott betur og verði kolefnisneikvæð árið 2030, þ.e. bindi þá meira kolefni en losað er.

Innra kolefnisverð Landsvirkjunar er afrakstur umfangsmikillar vinnu við að kortleggja þau úrræði sem standa til boða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Kolefnisverðið myndar hvata í ákvarðanatöku til að forgangsraða loftslagsvænum lausnum í fjárfestingum og ákvörðunum í rekstri sem draga úr losun. Einnig mun kolefnisverðið réttlæta mótvægisaðgerðir og fjárfestingar í að draga verulega úr losun frá jarðvarmavirkjunum.

Fréttasafn Prenta