Frétt

Landsvirkjun undirbýr rafmagnssamning við Thorsil

23. október 2015

Samningsdrög send til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA)

Landsvirkjun og Thorsil hafa komist að samkomulagi um drög að rafmagnssamningi milli félaganna um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík. Landsvirkjun mun senda samningsdrögin í undirbúningsferli (e. „pre-notification“) hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og bíða niðurstöðu stofnunarinnar áður en samningurinn verður tekinn til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu í stjórn Landsvirkjunar.

Undirritun er háð tilteknum skilyrðum, svo sem samþykki stjórna beggja félaga og að samningurinn uppfylli kröfur og skilyrði ESA.

Ráðgert er að kísilver Thorsil verði gangsett á fyrsta ársfjórðungi 2018. Samkvæmt samningsdrögunum mun Landsvirkjun afhenda Thorsil allt að 67 MW gangi áætlanir eftir. Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar ásamt stækkun sem fyrirhuguð er við Búrfellsvirkjun. Þá er gert ráð fyrir að síðasti áfangi orkuafhendingar Landsvirkjunar verði við gangsetningu Hvammsvirkjunar um mitt ár 2020.

Thorsil yrði þriðji viðskiptavinur Landsvirkjunar í kísilmálmiðnaði.

„Við höfum átt gott samstarf við Thorsil og vonum að ESA afgreiði samningsdrögin eins fljótt og unnt er. Samningurinn yrði hagstæður fyrir báða aðila og staðfestir enn á ný þá miklu eftirspurn sem er eftir rafmagni á Íslandi í dag á þeim samkeppnishæfu kjörum sem Landsvirkjun býður.“

Segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

 

Fréttasafn Prenta