Frétt

Landsvirkjun undirritar yfirlýsingu um loftslagsmál

20. nóvember 2015

Landsvirkjun undirritaði yfirlýsingu um loftslagsmál þann 16. nóvember við hátíðlega athöfn í Höfða. Yfir 100 íslensk fyrirtæki og stofnanir undirrituðu yfirlýsinguna sem verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember næstkomandi.

Yfirlýsing um loftslagsmál 

Við undirrituð ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.  

Þjóðir heims standa nú frammi fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga. Sameinuðu þjóðirnar gegna forystuhlutverki í að greina vandann, takast á við hann og aðlagast breyttum aðstæðum.

Borgir og bæir ásamt fyrirtækjum af öllum stærðum, verða sífellt mikilvægari þegar kemur að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og standast þau markmið sem sett hafa verið um losun þeirra.

Á Íslandi er ein helsta áskorunin mengandi samgöngur og losun úrgangs. Við ætlum að sýna samfélagslega ábyrgð í verki með því að:

1. draga úr losun gróðurhúsalofttegunda
2. minnka myndun úrgangs
3. mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta

Í samræmi við umhverfisstefnu Landsvirkjunar

Umhverfismál eru einn hornsteina starfsemis Landsvirkjunar og hefur Landsvirkjun verið að vinna eftir þessum markmiðum síðan árið 2007. Fyrirtækið vinnur metnaðarfulla umhverfisskýrslu á ári hverju þar sem hægt er að kynna sér margvísleg umhverfismál og umhverfisrannsóknir sem snerta fyrirtækið og starfsemi þess. Landsvirkjun hefur sett sér samgöngustefnu og styður við uppbyggingu vistvænna samgangna á Íslandi.

Hægt er að kynna sér umhverfisskýrslu landsvirkjunar hér: Umhverfisskýrsla 2014 

Fréttasafn Prenta