Frétt

Landsvirkjun vinnur til tvennra verðlauna í Berlín

30. september 2016
Á myndinni eru Stefán Kári Sveinbjörnsson, Jóna Bjarnadóttir og Margrét Arnardóttir frá Landsvirkjun, Sveinn Bjarnason frá Mannviti og Hans Orri Kristjánsson frá J&L, með verðlaunin.

Rafrænt mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar vann til tvennra verðlauna á Digital Communication Awards sem afhent voru í Berlín 29. september sl. Matsskýrslan var sett fram sem vefsíða og var tilnefnd í tveimur flokkum, Skýrslur og Stafræn framsetning gagna, og bar sigur úr býtum í þeim báðum. Digital Communication Awards er alþjóðleg keppni sem verðlaunar það besta úr heimi rafrænnar miðlunar og samskipta.

Landsvirkjun hlaut, fyrst íslenskra fyrirtækja, tilnefningu til verðlaunanna árið 2014, fyrir rafræna ársskýrslu fyrirtækisins. Umhverfismatið fylgir sama sniði og rafrænu ársskýrslurnar; er byggt upp sem vefsíða og textinn byggist á svokallaðri „non tech report“ og er mikið lagt upp úr því að síðan sé auðskilin, leikmönnum jafnt sem lærðum.

Landsvirkjun, Jónsson & Le’macks, Mannvit og Skapalón hönnuðu og unnu skýrsluna sem er sú fyrsta sinnar tegundar á rafrænu formi á heimsvísu. Hugmyndin á bak við þessa nýju nálgun er fyrst og fremst að setja flókið efnið fram á einfaldan og skýran máta þar sem umhverfisáhrif vindlundarins eru útskýrð á sjónrænan og gagnvirkan hátt. Þetta form skýrslunnar gerir efnið mun aðgengilegra en áður og auðveldar almenningi að koma athugasemdum og tillögum varðandi verkefnið á framfæri.

Ein af megin stoðum í stefnu Landsvirkjunar er að skapa stuðning og samstöðu með opnum samskiptum við hagsmunaaðila um allt land. Með stefnuna að leiðarljósi leggur Landsvirkjun áherslu á að skapa auðvelt aðgengi að skýrum upplýsingum um starfsemina og þróa útgáfu efnis með það í huga að það sé auðskilið öllum og framsetningin til þess fallin að skapa áhuga á viðfangsefninu. Ársskýrsla og umhverfisskýrsla fyrirtækisins hafa verið gefnar út á rafrænu formi undanfarin þrjú ár.

Vefurinn um Búrfellslund hefur þegar verið kynntur víða erlendis og fengið afar jákvæðar viðtökur. Hann þykir setja nýtt viðmið í framsetningu flókinna gagna sem ætluð eru almenningi og gefa raunsanna mynd af áhrifum framkvæmdanna á ásýnd og náttúru.

Sjá: burfellslundur.landsvirkjun.is

Sjá: www.digital-awards.eu

Fréttasafn Prenta