Frétt

Landsvirkjun, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík efla háskólanám og rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum

1. júlí 2013
Sitjandi f.v.: Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrita samstarfssamninga við hátíðlega athöfn hjá Landsvirkjun. Standandi f.v.: Guðrún Arnbjörg Sævarsdóttir, deildarforseti tækni- og verkfræðideildar HR, Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs og Ragna Sara Jónsdóttir, forstöðumaður samfélagsábyrgðar Landsvirkjunar, og Hilmar Bragi Janusson, deildarforseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ.

Landsvirkjun styður háskólana um 80 milljónir króna til fimm ára til að efla háskólanám og rannsóknir í jarðefnafræði, raforkuverkfræði og á öðrum fræðasviðum háskólanna

Landsvirkjun, Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands hafa tekið höndum saman um að stuðla að uppbyggingu þekkingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Með samstarfinu er lögð áhersla á að skapa sameiginlegt virði fyrir Landsvirkjun, háskólana og íslenskt samfélag með myndarlegum stuðningi við þau fræðasvið þar sem þörf er á námi og rannsóknum.

Í dag undirrituðu Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, samstarfssamninga til næstu fimm ára með það að markmiði að efla háskólanám og rannsóknir sem stuðla að þróun og aukinni þekkingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og vinnslu þeirra.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Með öflugra samstarfi Landsvirkjunar við háskólana viljum við skapa sameiginlegt virði fyrir atvinnulíf og samfélag með því að deila þekkingu og stuðla að nýsköpun og þróun á endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Samstarf við Háskóla Íslands

Með samstarfssamningi við Háskóla Íslands er leitast við að efla kennslu og rannsóknir á fræðasviðum jarðefnafræði, jarðfræði, véla- og iðnaðarverkfræði en Háskóli Íslands hefur áratuga langa reynslu af uppbyggingu þekkingar á þessum fræðasviðum. Samningurinn er eðlilegt framhald á áratuga samstarfi Landsvirkjunar og Háskóla Íslands á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Áhersla verður lögð á uppbyggingu þekkingar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Þetta verður meðal annars gert með fjárhagslegum stuðningi Landsvirkjunar við akademískt starf í jarðefnafræði innan Verkfræði- og náttúruvísindasviðs með ráðningu akademísks starfsmanns. Auk stuðnings við ráðningu starfsmanns í jarðefnafræði verða skilgreind innan samningsins verkefni sem skapa ný tækifæri fyrir Landsvirkjun, háskólann og íslenskt samfélag. Landsvirkjun leggur til fjárhagslegan stuðning til næstu fimm ára en heildarupphæð stuðningsins er kr. 40.000.000.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands: „Rannsóknir á endurnýjanlegum orkugjöfum eru með brýnustu viðfangsefnum samtímans – að gera þjóðum heims kleift að framleiða næga orku til framfara án þess að ógna loftslagi og lífríki.  Þetta samstarf skiptir því gríðarlega miklu máli og gefur Háskóla Íslands tækifæri til að styrkja enn betur áratugalanga uppbyggingu í orkuvísindum, á sviðum jarðfræði, verkfræði og umhverfisfræði. Við erum því afar þakklát Landsvirkjun fyrir stuðninginn við þetta mikilvæga viðfangsefni.“

Samstarf við Háskólann í Reykjavík

Landsvirkjun og Háskólinn í Reykjavík ganga til samstarfs um að efla rannsóknir og háskólanám á sviði endurnýjanlegrar orku en Háskólinn í Reykjavík hefur undanfarinn áratug byggt upp öflugt nám og þekkingu í tæknigreinum meðal annars á sviði vinnslu og dreifingar endurnýjanlegrar orku. Samstarfið felst í tveimur meginþáttum. Annars vegar samstarfi um eflingu sérfræðiþekkingar á sviðum framleiðslu, sölu og dreifingu á raforku, meðal annars með ráðningu akademísks starfsmanns við háskólann á sviði raforkuverkfræði. Hins vegar er um að ræða ramma um frekara samstarf í rannsóknum og þróun tengdum sameiginlegum viðfangsefnum á öllum þeim sviðum sem Háskólinn í Reykjavík starfar. Landsvirkjun leggur til fjárhagslegan stuðning til næstu fimm ára en heildarupphæð stuðningsins er kr. 40.000.000.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík: „Þekking, menntun og rannsóknir eru undirstaða þess að skapa verðmæti á Íslandi til framtíðar. Það á sér í lagi við um nýtingu þeirra náttúrulegu auðlinda sem við búum yfir. Framleiðsla, dreifing og nýting raforku eru lykilþættir í efnahag okkar og lífsgæðum. Við fögnum því þessu samstarfi við Landsvirkjun um eflingu þekkingar á þessum sviðum, en sá stuðningur sem fylgir samstarfinu mun styrkja til muna menntun og rannsóknir í raforkuverkfræði.“

Samstarfssamningar þessir styðja við gildandi stefnu Landsvirkjunar um samfélagslega ábyrgð sem felst í að skapa arð, fara vel með auðlindir og umhverfi og stuðla að því að þekking og jákvæð áhrif af starfsemi fyrirtækisins skili sér til samfélagsins. Eitt af markmiðum stefnunnar er að skapa sameiginlegt virði fyrir atvinnulíf og samfélag með því að deila þekkingu og stuðla að nýsköpun og þróun í atvinnulífi og samfélagi. Með þessum samningum er verið að efla flæði upplýsinga og þekkingar í báðar áttir auk þess sem tækifæri á nýrri þekkingu og sköpun eykst.

Fréttasafn Prenta