Frétt

Landsvirkjun styður stækkun friðlands Þjórsárvera en gerir athugasemdir við drög að friðlýsingarskilmálum

21. júní 2013

Friðlýsingarferlið ekki í samræmi við náttúruverndarlög

Málsmeðferð ólögmæt

Landsvirkjun hefur gert athugasemdir við drög að friðlýsingarskilmálum um friðland í Þjórsáverum og bent á að undirritun þeirra í dag hefði ekki staðist lög í ljósi verulegra annmarka á málsmeðferð. Landsvirkjun er augljós hagsmunaaðili á svæðinu og skiptir fyrirtækið því miklu máli að málsmeðferðin sé lögmæt, málefnaleg og vönduð.

Málsmeðferðin sem unnið hefur verið eftir er ólögmæt að mati Landsvirkjunar. Ekki hefur náðst samkomulag um friðlýsinguna við þá sem eiga hagsmuna að gæta eins og gert er ráð fyrir skv. 58. gr. náttúruverndarlaga. Ekki hefur verið farið eftir málsmeðferð skv. 59. gr., sem gerir ráð fyrir að ef samkomulag næst ekki um friðlýsingu skal gefa þeim sem hagsmuna eiga að gæta þriggja mánaða frest til að koma á framfæri athugasemdum.

Sú málsmeðferð, að undanskilja Landsvirkjun sem hagsmunaaðila í þessu friðlýsingarferli, stenst ekki skoðun og því þarf að koma til kasta ráðuneytisins að fylgja lögbundinni málsmeðferð.

Landsvirkjun styður stækkun friðlands Þjórsárvera

Landsvirkjun ítrekar að fyrirtækið styður stækkun friðlands Þjórsárvera og setur sig ekki á móti friðlýsingum, þvert á móti er friðlýsing studd þar sem það á við.

Landsvirkjun hefur vakið athygli Alþingis á að fyrirtækið styðji þá stækkunartillögu sem samstarfshópur umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga náði samkomulagi um á árinu 2007 þar sem var lagt til að friðlandið verði stækkað til norðausturs og til vesturs en ekki til suðurs. Sveitarfélögin á svæðinu lýstu yfir stuðningi við þá tillögu og óskuðu eftir að tillit yrði tekið til þeirra við afgreiðslu náttúruverndaráætlunar. Í samhljóða áliti umhverfisnefndar Alþingis um náttúruverndaráætlun á 136. löggjafarþingi ítrekaði nefndin mikilvægi þess að endanleg mörk hins friðaða svæðis verði ákveðin í samráði við heimamenn og hagsmunaaðila.

Endurskoðun umhverfisvænni virkjunarkosta verði ekki útilokuð

Í kjölfar niðurstöðu annars áfanga rammaáætlunar hefur Landsvirkjun skoðað hvernig breyta mætti tilhögun virkjunarhugmynda til að draga úr þeim umhverfisáhrifum sem faghópar hafa gert athugasemdir við.

Í tilfelli Norðlingaölduveitu telur Landsvirkjun eðlilegt að færi sé gefið á að endurskoða núverandi tilhögun t.d. mismunandi rekstrarhæðir veitulóns þannig að lón veitunnar nái ekki inn í Eyvafen. Norðlingaölduveita er með hagkvæmustu virkjunarkostum á landinu og er langt utan núverandi friðlandsmarka Þjórsárvera, en er innan fyrirhugaðrar stækkunar friðlandsins til suðurs. Áform um stækkun friðlandsins til suðurs myndi útiloka slíka breytta tilhögun.

Með athugasemdum sínum vill Landsvirkjun leggja áherslu á að í þessu máli sem og öðrum séu ákvarðanir teknar á vandaðan hátt og í samræmi við gildandi lög.

Umsögn Landsvirkjunar til nefndar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, dags. 8. apríl sl. þar sem helstu sjónarmið Landsvirkjunar um málið eru rakin. PDF

Fréttasafn Prenta