Frétt

Landsvirkjun undirritar samstarfssamning við Sesseljuhús umhverfissetur

18. desember 2012
Axel Benediktsson, forstöðumaður Sesseljuhúss, umhverfisseturs og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar við undirritun samstarfssamnings.

Landsvirkjun hefur verið einn aðalbakhjarl Sesseljuhúss umhverfissetur um árabil en með nýjum samning mun fyrirtækið styrkja setrið um 2 milljónir á ári næstu tvö árin.

Samstarf Landsvirkjunar og Sesseljuhúss umhverfisseturs hefur verið afar ánægjulegt en á undangengnum árum hefur fyrirtækið meðal annars tekið á móti fjölda erlendra og innlendra hópa á vegum setursins sem koma og fræðast um sjálfbæra þróun og orkumál á Íslandi. Einnig var opnaður á árinu 2012 Orkugarður, fræðslu- og skemmtigarður um endurnýjanlega orkugjafa fyrir skólahópa og almenning.

Hlutverk Landsvirkjunar er hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem okkur er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Það hlutverk á mjög vel við hið góða starf sem Sesseljuhús umhverfissetur vinnur af hendi. Samstarfið á undangengnum árum hefur verið ánægjulegt og gleðjumst við yfir að halda því áfram“, sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, við undirritunina.

Á samningstímanum mun sérstök áhersla verða lögð á að klára framkvæmdir við Orkugarðinn og einnig verður hafið markvisst átak í umhverfismálum og frekari sjálfbærni á Sólheimum.

Við í Sesseljuhúsi erum afar þakklát fyrir þann stuðning sem við fáum frá Landsvirkjun. Þessi styrkur gerir okkur kleift að halda uppi öflugu fræðslustarfi og hrinda af stað fjölmörgum spennandi verkefnum“, sagði Axel Benediktsson, forstöðumaður Sesseljuhúss umhverfisseturs, við undirritunina.

Sesseljuhús umhverfissetur er fræðslusetur um sjálfbæra þróun og sýningarhús um sjálfbærar byggingar. Þar fer fram alhliðafræðsla um umhverfismál og haldin eru námskeið fyrir nemendur á grunn- og háskólastigi. Auk þess eru þar málþing, fundir og námskeið þar sem allir eru velkomnir. Sýningar um umhverfismál eru jafnframt haldnar allan ársins hring. Bakhjarlar hússins eru Umhverfisráðuneytið og Landsvirkjun.

Stefna Landsvirkjunar er að stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins og leggur fyrirtækið áherslu á gott samstarf við samfélagið. Fyrirtækið starfar með því að tryggja gegnsæ vinnubrögð og stuðla að gagnvirku upplýsingaflæði, taka mið af hagsmunum samfélagsins og tryggja að samfélag og náttúra njóti góðs af starfsemi Landsvirkjunar. 

Fréttasafn Prenta