Frétt

Vöktun lífríkis við Lagarfljót

13. mars 2013
Á myndinni má sjá Hálslón, stærsta lón Kárahnjúkavirkjunar

Landsvirkjun hefur rekið Fljótsdalsstöð í rúmlega fimm ár frá lokum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Stærsta lón virkjunarinnar, Hálslón, er myndað með stíflu í farvegi Jökulsár á Dal við Fremri Kárahnjúka. Með tilkomu virkjunarinnar var Jökulsá á Dal veitt í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur í Lagarfljót. Orkusalan rekur Lagarfossvirkjun sem er staðsett í Hróarstungu um 25 km norðan Lagarfljótsbrúar við Egilsstaði.

Landsvirkjun stendur fyrir umfangsmiklum rannsóknum og vöktunum á lífríki vegna áhrifa af Kárahnjúkavirkjun. Reglulega eru birtar niðurstöður rannsókna og eru þær kynntar sveitarstjórnum og viðeigandi hagsmunaaðilum og gefnar út opinberlega og á vef sjálfbærniverkefnisins á Austurlandi þar sem 24 umhverfisvísar voru mótaðir og teknir til vöktunar.

Umhverfisráðherra fól Umhverfisstofnun í mars 2010 að gera úttekt á því hvernig þeim 20 skilyrðum sem umhverfis­ráðherra setti í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar frá desember 2001 hefði verið framfylgt. Niðurstaðan var sú að Umhverfisstofnun taldi að fjórtán skilyrði hefðu verið að fullu uppfyllt,  fimm skilyrði hefðu verið uppfyllt að því marki sem hægt var þar sem þau ná yfir lengra tímabil og eitt skilyrði hefur verið uppfyllt að hluta. Síðastnefnda atriðið snéri að því að lokaskýrsla  um rannsóknir á setlögum sem fóru undir Hálslón hafði ekki verið birt.

Varðandi lífríkið í Lagarfljóti:

Veiðimálastofnun hefur unnið að rannsóknum á fiskistofnum Lagarfljóts fyrir Landsvirkjun frá árinu 1998 og hafa rannsóknaskýrslur komið út reglulega. Sjá hlekk.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar kom fram að fæðuframboð komi til með að minnka samfara auknu gruggi í Lagarfljóti, en það taldist fremur rýrt fyrir. Sjá hlekk. Þetta er m.a. byggt á skýrslu um áhrif fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar á vatnalífríki á virkjanaslóð þar sem fram kemur: „Skilyrði lífríkis í Lagarfljóti rýrna þegar rennsli eykst og rýni minnkar með auknum svifaur sem berst með vatni úr Hálslóni. Aukning svifaurs rýrir líklega einnig gönguskilyrði fiska um Lagarfljót.“ Sjá hlekk.

Spár um aukið grugg og minnkandi gegnsæi í Lagarfljóti hafa gengið eftir. Við tilkomu Kárahnjúkavirkjunar jókst grugg í Lagarfljóti þannig að gegnsæi minnkaði um helming. Sjá hlekk. Aukning gruggsins hefur neikvæð áhrif á lífríki Lagarfljóts og dregur úr framleiðslu þess, þ.á.m. á fæðu silungsins sem lifir í Fljótinu. Niðurstöður rannsókna Veiðimálastofnunar benda til þess að stofnstærð silungs í Lagarfljóti sé innan við fjórðungur af stofnstærð fyrir virkjun.Sjá hlekk. Á næstu vikum er von á skýrslu fyrir árið 2012 um samsvarandi vöktun og hafa verið gerðar (2005, 2006, 2010).

Landsvirkjun mun funda með Veiðifélagi Lagarfljóts og fara yfir stöðuna með því. Ákvarðanir um framhald rannsókna, mótvægisaðgerða og eða annarra aðgerða  verða teknar í samráði við félagið.

Varðandi lífríki Jökulsár á Dal:

Andstætt við neikvæð áhrif á lífríki Lagarfljóts vegna aukins aurburðar, er Jökulsá á Dal orðin tær nema þann tíma sem rennur á yfirfalli í Hálslóni. Á þeim tíma (síðara hluta sumars og fram á haust) er aur minni en tíundi hluti þess sem áður var og hefur lífríki Jökulsár á Dal af þeim sökum aukist verulega og er hún á góðri leið með að verða sjálfbær laxveiðiá. Í mati á umhverfisáhrifum kom fram að vænta mætti jákvæðra áhrifa á lífríkið í Jökulsá á Dal en töluverð óvissa var talin varðandi hrygningarskilyrði og aðra líffræðilega þætti. Nú er talið að fram komin áhrif hafi almennt verið jákvæðari en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum.

Varðandi vatnsborð Lagarfljóts:

Vatnsborð í Lagarfljóti við Egilsstaði eftir að Fljótsdalsstöð var tekin í rekstur 2008 hefur verið hærra en líkanreikningar gáfu til kynna, en þeir byggðu á mældu vatnsborði og rennsli í Lagarfljóti við Lagarfoss á árabilinu 1975–2001. Meðalmunurinn yfir árið er 7 cm en einkum hefur vatnsborðið verið hærra á tímabilinu nóvember til febrúar. Mestur hefur munurinn verið í janúar eða 18 cm. Leitað hefur verið skýringa á þessum mun með ýmsum athugunum.

Veðurstofan gaf út endurskoðaða rennslisröð við Lagarfossvirkjun sl. sumar. Samkvæmt henni var meðalrennsli á árunum 2008 til 2011 um 30 m3/s (15%) meira en í viðmiðunarröðinni fyrir tímabilið 1975 til 2001. Um þriðjungur af aukningunni eða 10,6 m3/s kemur frá Hálslóni. Sú aukning kemur einkum fram í júní og júlí. Samkvæmt þessu má ætla að tæplega 2/3 hluta aukningarinnar megi rekja til náttúrulegs rennslis til Lagarfljóts og tengist ekki Kárahnjúkavirkjun.

Landbrot og rof:

Umræður um rofvandamál neðan Lagarfljótsbrúar hafa átt sér stað frá því fyrir tíma Kárahnjúkavirkjunar. Aukið rennsli og hækkandi vatnsborð geta aukið rofhraða. Það eru einkum tvö svæði þar sem aukið landbroti hefur verið tengt hækkuðu vatnsborði í Lagarfljóti, á Úthéraði við Hól og Húsey og neðan Lagarfljótsbrúar við Egilsstað. Sjá hlekk.

Landsvirkjun mun í samráði við landeigendur, bæjarstjórn, Umhverfisstofnun, Orkusöluna og aðra hagsmunaaðila leggja mat á mótvægisaðgerðir sem kunna að vera mögulegar.

 

Fréttasafn Prenta