Frétt

Líflegur og vel sóttur ársfundur

26. apríl 2017
Benedikt Jóhannesson, efnahags- og fjármálaráðherra, hélt ræðu á ársfundi Landsvirkjunar 2017.
Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, hélt ræðu á ársfundinum 2017.
Hörður Arnarson forstjóri og Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri héldu kynningu á stöðu og horfum í orkumálum hérlendis og erlendis.
Gerður Björk Kjærnested var fundarstjóri á ársfundi Landsvirkjunar 2017.
Húsfyllir var á Hilton Reykjavík Nordica.
Húsfyllir var á Hilton Reykjavík Nordica.

„Þarf framtíðin orku?“ var spurningin sem lögð var fyrir ársfund Landsvirkjunar árið 2017, sem haldinn var fyrir fullum sal á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Til máls á fundinum tóku Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra og Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar, auk þess sem forstjóri fyrirtækisins, Hörður Arnarson, og aðstoðarforstjóri, Ragna Árnadóttir, kynntu afkomu og starfsemi ársins og fóru yfir stöðu og framtíðarhorfur í orkumálum hérlendis og erlendis. Fundarstjóri var Gerður Björk Kjærnested.

Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í ávarpi sínu að Landsvirkjun væri burðarstoð í innviðum ríkisins; vel rekið fyrirtæki sem nýtti verðmætar auðlindir landsins til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Benedikt sagði að það væri ástæða fyrir því að obbi þeirra ferðamanna sem sæktu landið heim nefndi náttúruskoðun sem meginástæðu fyrir heimsókn sinni. Þetta ýtti undir mikilvægi þess að Landsvirkjun ynni í góðri sátt við landsmenn, þar sem jafnvægi væri milli virkjunar og verndar – ósnortin náttúra væri einnig auðlind. Benedikt sagði mikilvægt að ekki væri gengið á auðlindir þjóðarinnar, heldur væru þær nýttar á sjálfbæran hátt; það fyrirkomulag hefði verið tekið upp í sjávarútvegi og það ætti að gera víðar. Hið sama gilti um ferðaþjónustu og orkuvinnslu.

Í máli Benedikts kom fram að ríkisstjórn Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hefði ákveðið að hverfa frá þeirri stefnu að orkuauðlindir landsins yrði fyrst og fremst að nýta til að laða að stóriðju. Í staðinn ætti hún að auka fjölbreytni atvinnulífsins, skapa jákvæðar aðstæður fyrir græna atvinnustarfsemi og umhverfisvæna tækniþróun og framleiðslu og grænar samgöngur.

Þá sagði Benedikt m.a. frá því að ekki stæði til að breyta eignarhaldi ríkisins á Landsvirkjun, en í fjármálaráðuneytinu stæði nú yfir vinna við að uppfæra almenna eigendastefnu ríkisins fyrir hluta- og sameignarfélög, þar með talda Landsvirkjun, en drög hinnar nýju stefnu yrðu kynnt á haustmánuðum.

Þjóðarsjóður á laggirnar 2019-20

Benedikt sagði að orkugeirinn væri ein af grunnstoðum atvinnulífs og góðra lífskjara á Íslandi. Mikilvægt væri að ríkið tryggði að arður af orkuvinnslu skilaði sér til almennings. Hann greindi frá því að nýr vinnuhópur um svokallaðan þjóðarsjóð hefði verið skipaður og væri við störf og sagðist telja eðlilegt að ofarlega á forgangslista slíks sjóðs, sem að sínu mati ætti aðeins að fjárfesta erlendis, væri trygging gegn stóráföllum. Benedikt sagðist vonast til að sjóðurinn gæti hafið störf árið 2019 eða 20.

Benedikt vék að drögum að þingsályktunartillögu um rammaáætlun, sem liggur nú fyrir Alþingi. Hann sagði afar mikilvægt að samstaða næðist um málið, svo ekki yrði horfið aftur að því fyrirkomulagi að sérlög yrðu sett um hverja virkjunarframkvæmd. Hann vék einnig að mögulegum sæstreng milli Íslands og Bretlands og sagði að ekki væri vænlegt að íslensk stjórnvöld kæmu að þeirri dýru framkvæmd með beinum hætti. Að mati Benedikts er umræðan um sæstreng ekki orðin nógu þroskuð til að hægt sé að taka afstöðu til framkvæmdarinnar.

Verðmætasköpun grundvöllur góðra lífskjara

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar sagði í ávarpi sínu að eitt mest krefjandi viðfangsefni okkar Íslendinga um þessar mundir væri að tryggja góð lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Sem endranær yrði það best gert með því að auka framleiðni í hagkerfinu eða, með öðrum orðum, með því að ná sem mestum verðmætum út úr framleiðsluþáttunum. Þetta væri ekki síður brýnt í orkugeiranum en öðrum atvinnugreinum. Í orkugeiranum væru auðlindirnar takmarkaðar og því sérstaklega mikilvægt að hámarka verðið og arðsemina sem fengist fyrir þær. Orkuvinnsla einkenndist af miklum virðisauka vinnuafls og frekar lágum virðisauka fjármagns. Því væri afar aðkallandi að auka arðsemi fjármagns í greininni. Það yrði fyrst og fremst gert með því að fá hærra verð fyrir orkuna sem við ynnum.

Að mati Jónasar er Landsvirkjun á góðri leið í þessum efnum, en arðsemi eigin fjár fyrirtækisins hafi verið að batna á undanförnum árum og stefni nú, með sama áframhaldi, í að verða svipuð og arðsemi hjá orkufyrirtækjum á Norðurlöndunum, sem við viljum bera okkur saman við.

Jónas sagði að orkuvinnsla og náttúruvernd gætu að sínu mati farið vel saman. Margar náttúruperlur okkar Íslendinga væru svo stórbrotnar og mikilfenglegar að þær yrði að vernda fyrir komandi kynslóðir. Ábyrgð okkar í því efni væri mikil. Eigi að síður væri engum vafa undirorpið, í hans huga, að unnt væri að nýta auðlindirnar í meiri mæli en nú er gert, án þess að ganga á verðmætar náttúruperlur. Það gilti bæði um ný svæði og svæði sem þegar hafa verið tekin undir orkuvinnslu. Að því er síðarnefndu svæðin varðaði hefði hjá Landsvirkjun verið lögð mikil áhersla á að nýta þau betur. Þar væru enn umtalsverð tækifæri.

Hillir undir auknar arðgreiðslur

„Með aukinni arðsemi og bættri skuldastöðu Landsvirkjunar hillir undir að arðgreiðslur til eigandans, íslensku þjóðarinnar, geti aukist verulega innan nokkurra missera þegar ekki verður lengur nauðsynlegt að greiða niður skuldir í jafn ríkum mæli. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að stofna skuli stöðugleikasjóð sem haldi utan um arð af orkuauðlindum í eigu ríkissjóðs, tryggi komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og geti verið sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið. Þetta er metnaðarfullt verkefni,“ sagði Jónas ennfremur.

„Ég hef áður haft orð á því á ársfundi Landsvirkjunar að mikilvægt sé fyrir þjóðarhag að Íslendingum lánist að nýta auðlindir landsins af skynsemi. Ekkert gerist þó af sjálfu sér í þeim efnum. Ég leyfi mér því að minna enn og aftur á að frumkvöðlastarf og framkvæmdir fortíðar lögðu hornstein að þeim lífsgæðum sem við njótum. Á sama hátt munu ákvarðanir og athafnir okkar ráða miklu um lífsgæði komandi kynslóða,“ sagði Jónas Þór að lokum.

Hörður Arnarson forstjóri hóf kynningu sína á því að fjalla um afkomu ársins, en hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var að hans mati ásættanlegur þrátt yfir að sala hefði lækkað milli ára vegna rekstrarvanda viðskiptavina. Hörður rakti að þrátt fyrir þessar aðstæður hefði lánshæfismat fyrirtækisins án ríkisábyrgðar hækkað upp í fjárfestingarflokk.

Hörður rakti hvernig fjármunamyndun áranna 2010-2016 hefði verið nýtt til fjárfestinga fyrir 90 milljarða króna, niðurgreiðslu skulda fyrir 100 milljarða króna, um leið og arðgreiðslur hefðu numið 8 milljörðum. Á tímabilinu 2020 til 2016 gæti eigandinn, íslenska ríkið, ákveðið arðgreiðslur upp á í kringum 110 milljarða króna.

Hörður fjallaði um innlenda og erlenda raforkumarkaði. Spá Alþjóða orkumálastofnunarinnar gerir ráð fyrir því að eftirspurn eftir raforku muni aukast um 65% í heiminum til ársins 2040. Samkvæmt spánni mun þessi aukna raforkuvinnsla valda 5% aukningu í losun, þar sem hlutur endurnýjanlegrar orku í aukinni vinnslu fer vaxandi.

Loftslagsmál eru orkumál

Að mati Harðar eru loftslagsmál í eðli sínu orkumál, enda séu 65% af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum tengd orkuvinnslu. Hann segir áhyggjuefni að spáð sé sömu kolanotkun 2040 og var 2014. Stærsta áskorunin sé að draga úr henni, en um leið sé jákvætt að hlutur endurnýjanlegrar orku fari vaxandi, með lækkandi kostnaði við vinnslu vind- og sólarorku.

Hörður fór yfir stöðu orkumála í Evrópu. Hann byrjaði á Þýskalandi, þar sem raforkureikningurinn til notenda hefur hækkað, en samsetning hans breyst, þannig að skattar eru hærri en sjálf raforkan ódýrari. Þetta megi rekja til þess að niðurgreiðslur á endurnýjanlegri orku, til að ná árangri í loftslagsmálum, hafi gert að verkum að markaðshlutdeild kolefnislosandi vinnslu hafi minnkað. Sem hafi þýtt niðurgreiðslu til kolefnislosandi orkuvinnslu, sem hefur leitt til umframframboðs og lágs verðs, sem aftur hefur aukið þörf á niðurgreiðslum á endurnýjanlegri orkuvinnslu.

Að sögn Harðar sitja Norðurlönd ekki auðum höndum í virkjanamálum. Norðmenn og Svíar hafi ákveðið að bæta við endurnýjanlegri orkuvinnslu upp á 28 teravattstundir á árunum 2012-2020 og Svíar 18 teravattstundum til viðbótar 2020-30. Ekki vegna orkuskorts, en horft væri til útflutnings í gegnum sæstrengi og atvinnuuppbyggingar. Hann nefndi að Norðurlöndin hefðu verið virk í því að laða til sín gagnaver og tók sem dæmi tvö gagnaver á vegum Facebook, eitt frá Apple og eitt frá Google. Ekki væri ólíklegt að fjöldi gagnavera á Norðurlöndum tvöfaldaðist á næstu tveimur árum.

Sala til heimila og fyrirtækja með upprunaábyrgðum

Hörður tilkynnti að öll sala Landsvirkjunar árin 2016-18 sem færi til heimila og fyrirtækja, í gegnum sölufyrirtæki rafmagns, yrði með upprunaábyrgðum. Áfram gætu stórnotendur samið um kaup á slíkum ábyrgðum, vildu þeir styðja við endurnýjanlega orkuvinnslu.

Að lokum fór Hörður yfir orkuþörf á Íslandi í næstu framtíð. Miðað við grunnvöxt og þær skuldbindingar sem nú þegar eru í gildi nemur óvalkvæður vöxtur orkuvinnslu á Íslandi 2,5 teravattstundum til ársins 2030. Spurningin sem þyrfti að svara væri hvort vilji stæði til þess að gera meira. Nefndi hann frekari rafvæðingu samgangna og atvinnulífs, uppbyggingu gagnavera, frekari þróun núverandi stórnotenda, nýjan hefðbundinn iðnað og hvort við Íslendingar vildum taka frekari þátt í orkuskiptum heimsins með sæstreng. Lagði hann áherslu á að umræðan um þessi mál væri flókin og vænlegra væri að vanda til verka – horfa til reynslu og verka Norðmanna og Svía, sem stæðu eða hefðu staðið í svipuðum sporum og við.

Orkuvinnsla, bætt nýting og orkusparnaður

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri leitaðist í erindi sínu við að svara spurningunni hvernig hægt væri að sinna orkuþörf framtíðar.

Að mati Rögnu snýst það ekki aðeins um að bæta við virkjun og orkuvinnslu, heldur þarf að hennar mati líka að hugsa um betri nýtingu og orkusparnað. Aðrar þjóðir, sem ekki hafi sömu tækifæri á endurnýjanlegri orkuvinnslu hafi lagt áherslu á þau mál – við eigum að gera það líka.

Ragna sagði að Landsvirkjun hugaði stöðugt að viðhaldi og endurbótum, til að hámarka nýtingu orkuauðlindarinnar. Nefndi hún sérstaklega að tækifæri í þeim efnum gætu legið í aukinni nýtingu vindorku og samspili hennar og vatnsafls.

Annað tæki til að bæta nýtingu væri að skoða raforkusamninga og afhendingu, eins og Landsvirkjun hefði gert, t.a.m. með nýju fyrirkomulagi samninga við sölufyrirtæki rafmagns á síðasta ári. Sumir – stórnotendur - þyrftu stöðuga afhendingu, allan sólarhringinn. Aðrir ekki – því væri hægt að bjóða þeim orku sem væri skerðanleg.

Þá nefndi Ragna bætta nýtingu vatns innan svæða. Hægt væri að nýta innviði betur – vélar, miðlunarlón og flutningskerfi. Í því samhengi nefndi hún stækkun Búrfellsvirkjunar, en sú framkvæmd stendur nú yfir og fullnýtir rennslið við gömlu Búrfellsvirkjunina, en um 14% renna nú framhjá henni.

Ragna vék að orkusparnaði og sagði að okkur bæri að umgangast þau miklu verðmæti sem fælust í okkar endurnýjanlegu orku af þeirri virðingu sem hún ætti skilið. Mikil tækifæri væru í þessum efnum – orkusparnaður væri í raun hagkvæmasta virkjunin.

Í þriðja lagi fjallaði Ragna um nýjar virkjanir. Landsvirkjun er nú með tvær virkjanir í byggingu – fyrrnefnda stækkun Búrfellsvirkjunar upp á 100 megavött og svo jarðvarmavirkjun við Þeistareyki, upp á 90 megavött.

Ragna rakti ferli rammaáætlunar, en ákvarðanir um flokkun virkjunarkosta í nýtingar-, bið- og verndarflokk eru teknar í því ferli, sem á samkvæmt lögum að taka mið af sjálfbærri þróun, en sjálfbær þróun byggir á umhverfis-, efnahags- og samfélagslegum áhrifum. Fyrir Alþingi liggur tillaga að þingsályktun um þriðja áfanga rammaáætlunar. Samkvæmt henni eru virkjunarkostir upp á 705 megavött í nýtingarflokki og 550 megavött í biðflokki.

Þá nefndi Ragna aðra opinbera stefnumörkun sem varðar virkjanamál, en í náttúruverndarlögum er ákvæði sem verndar víðerni, það er miðhálendi Íslands. Nú væri að störfum nefnd sem hefði það hlutverk að fjalla um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.

Mikilvægt svæði fyrir orkuvinnslu

Ragna rakti að miðhálendi Íslands er afar mikilvægt svæði frá sjónarhóli raforkuvinnslu, eðlis síns vegna, þar sem afl vatnsins væri virkjað þegar það félli af hálendisbrúninni. Mörg virkjunarmannvirki væru á hálendinu, aflstöðvar, miðlunarlón, háspennulínur og vegir. Hún sagði umhugsunarefni að þegar teknar væru ákvarðanir um nýtingu svæða á miðhálendinu væri aðeins fjallað um vernd gegn nýtingu sem byggði á orkuvinnslu – ekki annarri atvinnustarfsemi. Einnig væri umhugsunarefni að í rammaáætlun væri einni tegund af nýtingu – ferðamennsku – teflt fram gegn annarri tegund nýtingar – orkuvinnslu. Að hennar mati gætu orkuvinnsla og ferðamennska farið vel saman.

Ragna sagði að Landsvirkjun styddi markmið rammaáætlunar, en hefði bent á að gögn um áhrif á samfélag og efnahagslíf skorti í vinnu vinnuhópsins. Hún lagði áherslu á að ákvarðanir um flokkun landsvæða væru ekki í höndum Landsvirkjunar, en gögn um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif nýtingar skorti og ekki væri skynsamlegt að taka langtímaákvarðanir án þess að þau lægju fyrir.

Að síðustu lagði Ragna áherslu á að vandað yrði til verka. Um væri að ræða flóknar ákvarðanir og marga hagsmunaaðila. Sátt væri nauðsynleg, en til þess yrði samtalið að eiga sér stað. Landsvirkjun væri reiðubúin til að taka þátt í því samtali.

Að lokum spunnust líflegar umræður á meðal fundargesta, sem Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona stýrði.

Erindi Benedikts Jóhannessonar efnahags- og fjármálaráðherra.

Erindi Jónasar Þórs Guðmundssonar stjórnarformanns.

Kynning Harðar og Rögnu.

Fréttasafn Prenta