Frétt

Ljósafossstöð áttatíu ára

25. október 2017
Ljósafossstöð í byggingu, árið 1936 eða 7.
  • Um Ljósafossstöð hafa runnið um 195 milljarðar rúmmetra af vatni, eða 195 þúsund gígalítrar, sem samsvara um 70 Þingvallavötnum.
  • Vél 1 í Ljósafossstöð hefur unnið rafmagn sem jafngildir raforkunotkun Selfoss frá 1937.

Áttatíu ár eru í dag liðin frá því að Ljósafossstöð var gangsett, en með henni var framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu fjórfaldað. Þann 25. október 1937 var straumi frá stöðinni hleypt inn á bæjarkerfið og þar með tók Sogsvirkjunin til starfa. Sogsvirkjunin var félag í eigu Reykjavíkurbæjar og íslenska ríkisins.

Mynd: Morgunblaðið.

Í tilefni af gangsetningunni bauð bæjarráð nokkrum mönnum að mæta „í skiftistöðinni við Elliðaár. Þar fluttu stuttar ræður þeir Steingrímur Jónsson, framkvæmdastjóri Sogsvirkjunarinnar, Haraldur Guðmundsson, atvinnumálaráðherra og Pjetur Halldórsson borgarstjóri,“ sagði í frétt Morgunblaðsins 26. október 1937.

Árið áður, 20. júní 1936, hafði Kristján konungur tíundi lagt hornstein að stöðinni, „að viðstaddri Hennar Hátign Alexandrine drotningu og þeirra konunglegu tignum prins Knud og prinsessu Caroline Mathilde,“ að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins daginn eftir.

Ljósafossstöð stendur við samnefndan foss, við útfall Úlfljótsvatns. Stöðin stendur á árbakkanum austan við fossinn, vatnið er leitt um pípur að hverflum stöðvarinnar og þaðan út í ána neðan við fossinn. Við byggingu stöðvarinnar voru settar upp tvær vélasamstæður, samtals með 8,8 MW afli. Þriðja vélin bættist við árið 1944 og er hún 6,5 MW.

Við stofnun Landsvirkjunar árið 1965 tók fyrirtækið við öllum vatnsréttindum og réttindum ríkis og borgar til virkjunar í Sogi og Þjórsá og með yfirtöku eigna Sogsvirkjunar var fyrirtækinu tryggður traustur rekstrargrundvöllur fyrstu árin. Síðan þá hefur Landsvirkjun rekið Ljósafossstöð og hinar tvær aflstöðvarnar við Sogið, Írafossstöð og Steingrímsstöð.

Fréttasafn Prenta