Losunar­heimild er eitt – uppruna­ábyrgð annað

25.06.2020

Sívaxandi áhugi á umhverfisvernd er mikið fagnaðarefni, en gera verður þá kröfu að rétt sé farið með helstu hugtök ef umræðan á að ná máli. Ragnhildur Sverrisdóttir fer yfir málið.

Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi.
Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi.

Sívaxandi áhugi á umhverfisvernd er mikið fagnaðarefni, en gera verður þá kröfu að rétt sé farið með helstu hugtök ef umræðan á að ná máli.

Í pistli í Fréttablaðinu í gær fjallar blaðamaður um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Þar vísar hann í svokallað ETS kerfi en skriplar þar á skötunni og telur það kerfi ná til upprunaábyrgða raforku.

Þetta er rangt.

Svokallað ETS kerfi (Emissions Trading System) snýst um losunarheimildir gróðurhúslofttegunda. Í daglegu tali eru þær heimildir oft kallaðar mengunarkvótar. Þetta kerfi Evrópusambandsins byggir á að sett eru ákveðin takmörk á hvað t.d. ákveðin grein atvinnulífsins má losa af gróðurhúslofttegundum. Innan þeirrar greinar mega menn eiga viðskipti með heimildirnar að vild. Hluti þessara heimilda er endurgjaldslaus. Sá hluti minnkar hins vegar jafnt og þétt, sem þýðir að fyrirtæki verða annað hvort að kaupa sér viðbótarheimildir eða finna leiðir til að draga úr losun. Þetta kerfi hefur reynst afar góður hvati fyrir fyrirtæki til að draga úr losun, enda blasir við að það sparar fé sem annars yrði að eyða í losunarheimildir.

Kerfið um upprunaábyrgðir raforku er allt annað kerfi. Þar er enginn að kaupa sér losunarheimildir af nokkru tagi. Fyrirtæki (raforkunotandi) getur hins vegar stutt við græna raforkuvinnslu, óháð staðsetningu, með því að kaupa upprunaábyrgð. Verksmiðja á meginlandi Evrópu getur t.d. kosið – því þetta er val en ekki skylda – að styðja við græna raforkuvinnslu, sem hún annars hefði ekki kost á. Þannig leggur verksmiðjan sitt af mörkum til grænnar orku. Það er svo annað mál og algjörlega óskylt, að hugsanlega þarf verksmiðjan að kaupa sér losunarheimildir vegna gróðurhúsalofttegunda. Þetta kerfi upprunaábyrgða hefur heldur ekkert með loftslagsmarkmið Íslands að gera.