Frétt

Magnús Þór Gylfason ráðinn yfirmaður samskiptasviðs

8. nóvember 2012

Samskiptasvið ber ábyrgð á innri og ytri samskiptum hjá Landsvirkjun, sér um samskipti við fjölmiðla og hefur frumkvæði að markvissri upplýsingagjöf.

Magnús Þór Gylfason hefur verið ráðinn yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar. Magnús Þór er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og býr yfir fjölbreyttri og langri reynslu á sviði samskipta.

Magnús Þór hefur starfað hjá Landsvirkjun á samskiptasviði sem staðgengill yfirmanns frá byrjun þessa árs. Magnús Þór var aðstoðarmaður borgarstjórans í Reykjavík á árunum 2008-2010. Á árunum 2006-2008 var hann skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritari með ábyrgð á rekstri og upplýsingamálum. Á árinu 2008 var hann framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto Alcan á Íslandi. Þá starfaði Magnús Þór um skeið sem framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna og á Ríkisútvarpinu Sjónvarpi sem fréttamaður. Magnús Þór hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa og hefur t.d. setið í menningar- og ferðamálaráði og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar og stjórn Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð.

Hlutverk samskiptasviðs Landsvirkjunar er að stunda virka upplýsingamiðlun um starfsemi og stefnu Landsvirkjunar með það að markmiði að auka sýnileika og skilning á starfsemi og stefnu fyrirtækisins og skapa aukna sátt um starfsemi þess.

Samskiptasvið Landsvirkjunar ber ábyrgð á innri og ytri samskiptum hjá Landsvirkjun, sér um samskipti við fjölmiðla og hefur frumkvæði að markvissri upplýsingagjöf. Samskiptasvið hefur einnig umsjón með útgáfu og auglýsingum á vegum Landsvirkjunar og vörumerki þess, rekur vefinn Landsvirkjun.is, skipuleggur ársfundi, haustfundi, starfsmannafundi og aðra stærri viðburði og hefur umsjón með gestamóttökum í samstarfi við starfsstöðvar Landsvirkjunar.

Fréttasafn Prenta