Frétt

Mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar lokið

14. mars 2018

Mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar er nú lokið með áliti Skipulagsstofnunar á áhrifum virkjunarinnar á landslag og ásýnd lands og á ferðaþjónustu og útivist.

Skipulagsstofnun ákvað í desember 2015 að endurskoða ætti mat á áhrifum Hvammsvirkjunar á ofangreinda tvo umhverfisþætti en mat á öðrum þáttum frá 2003 væri í fullu gildi. Sú ákvörðun var kærð til Úrskurðarnefndar í umhverfis- og auðlindamálum, sem nú í febrúar 2018 hafnaði kröfum kærenda um ógildingu ákvörðunar Skipulagsstofnunar.

Með áliti Skipulagsstofnunar nú er því mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar lokið og þar með mikilvægum hluta undirbúnings við virkjunina.

Umhverfisáhrifum lýst á fullnægjandi hátt

Hvammsvirkjun er á svæði þar sem allir innviðir eru þegar til staðar og því fylgir henni minni vegagerð en nýrri virkjun á óbyggðu svæði, núverandi háspennulínur nýtast og ekki verður þörf á nýjum línum. Þá er ekki þörf á miðlunarlóni, heldur einungis inntakslóni með tiltölulega lítilli rýmd og óverulegri vatnsborðssveiflu þar sem rennsli Þjórsár neðan Búrfells stjórnast af miðlunum ofar á vatnasviðinu. Engu að síður fylgja Hvammsvirkjun áskoranir.

Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla Landsvirkjunar uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt af hálfu Landsvirkjunar. Í álitinu segir að framkvæmdaþættir séu mjög umfangsmiklir og ljóst að ásýnd og yfirbragð á stóru svæði komi til með að taka miklum breytingum með tilkomu virkjunarinnar.

Skipulagsstofnun telur að áhrif virkjunarinnar á landslag verði verulega neikvæð og að fyrirhugaðar framkvæmdir séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þeirra breytinga sem munu verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu.

Mikilvægi mótvægisaðgerða Landsvirkjunar

Í því sambandi undirstrikar Skipulagsstofnun mikilvægi þeirra mótvægisaðgerða sem Landsvirkjun hefur lagt til um að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdanna. Jafnframt að ráðist verði í mótvægisaðgerðir vegna neikvæðra áhrifa á landslag, m.a. með útfærslu bakka og stíflugarða svo draga megi eins og kostur er úr manngerðri ásýnd lónsins auk annarra aðgerða sem fjallað er um í matsskýrslunni.

Landsvirkjun mun nú fara yfir þau atriði sem Skipulagsstofnun bendir á og taka tillit til þeirra við frekari undirbúning og mótvægisaðgerðir. Unnið er að vandaðri útlitshönnun mannvirkja, landslagshönnun, rýni á veigamiklum þáttum hönnunar og útfærslu á mótvægisaðgerðum til að lágmarka umhverfisáhrif.

Engar framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar eru áformaðar á þessu ári. Landsvirkjun er að ljúka miklu framkvæmdaskeiði á þessu ári með byggingu tveggja nýrra stöðva; 90 MW jarðvarmastöðvar á Þeistareykjum og 100 MW vatnsaflsstöðvar með stækkun Búrfells.

Nánar um Hvammsvirkjun:
www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Virkjunarkostir/Hvammsvirkjun
hvammur.landsvirkjun.is/

Álit Skipulagsstofnunar:
www.skipulag.is/media/attachments/Umhverfismat/1274/201702047.pdf

Fréttasafn Prenta