Frétt

Meðalverð Landsvirkjunar til sölufyrirtækja rafmagns mun lækka um áramót

23. nóvember 2016
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Vegna fréttar Morgunblaðsins í dag um mögulegar verðhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur (OR) til notenda um næstu áramót, með undirfyrirsögninni „Hækkun á verði frá Landsvirkjun“, vill Landsvirkjun taka eftirfarandi fram:

  • Meðalverð Landsvirkjunar til sölufyrirtækja rafmagns mun lækka um áramót um 2,0% á föstu verðlagi milli ára, miðað við áætlanir frá fyrirtækjunum sjálfum um rafmagnskaup á næsta ári.
  • Verðlagning á rafmagni sölufyrirtækja til neytenda ræðst m.a. af ýmsum ólíkum þáttum í rekstri þeirra sjálfra. Sölufyrirtækið Orka náttúrunnar (ON), dótturfyrirtæki OR, vinnur sjálft meira en 80% af því rafmagni sem fyrirtækið selur. Afganginn kaupir fyrirtækið á samkeppnismarkaði, frá Landsvirkjun eða öðrum orkufyrirtækjum. Þar af leiðandi geta mögulegar verðhækkanir ON til notenda af því tagi sem eru til umfjöllunar í Morgunblaðinu í dag ekki verið raktar til Landsvirkjunar.
  • Landsvirkjun selur ekki rafmagn beint til heimila eða smærri fyrirtækja heldur til sölufyrirtækja sem selja það áfram til notenda. Landsvirkjun vinnur nú að gerð nýrra samninga við sölufyrirtækin, sem munu taka gildi um næstu áramót.

Til fróðleiks hefur Landsvirkjun tekið saman almennar upplýsingar um rafmagnsvinnslu og sölu rafmagns á Íslandi. Þar má m.a. sjá hvernig rafmagnsreikningur heimila og fyrirtækja er samsettur:

www.landsvirkjun.is/vorurogthjonusta/vidskiptavinir/heildsolumarkadur

Fréttasafn Prenta