Frétt

„Mikilvægt að ná sem flestum að borðinu á fyrri stigum“

2. nóvember 2015
Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku, á kynningarfundinum
Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, var fundarstjóri á opnum fundi um Búrfellslund

Fjölmenni var á kynningarfundi um fyrirhugaðan vindlund við Búrfell sem haldinn var á Nauthóli í morgun. Ríflega 100 manns sóttu fundinn og kynntu sér verkefnið. Er nú verið að vinna mat á umhverfisáhrifum fyrir vindlundinn, svokallaðan Búrfellslund, en Landsvirkjun hefur ákveðið að setja matið fram á nýjan og aðgengilegri hátt með rafrænni framsetningu. Er það gert með því markmiði að auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið og koma á framfæri athugasemdum og ábendingum.

Mikilvægt að ná sem flestum sjónarmiðum að borðinu á fyrri stigum virkjanakosta

Á fundinum ræddi Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, um þennan nýja orkukost og kynnti niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var í september en þar kom í ljós að ríflega 85% landsmanna eru hlynnt því að reisa vindmyllur á Íslandi og nýta vind sem orkugjafa. Ragna talaði ennfremur um mikilvægi þess að kynna sér málið meðan verkefnið sé ekki komið of langt á veg. Mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar er nú í opinberu umsagnarferli en hægt er að skila inn athugasemdum til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaðan virkjunarkost til 26. nóvember.

„Við leggjum áherslu á að lögbundnir ferlar virki eins og þeir eigi að gera en mat á umhverfisáhrifum er ferli sem á að skila ákveðnum árangri. Hér hefur verið ráðist í að gefa þessa skýrslu út rafrænt og hún kynnt til að fá sem flest sjónarmið að borðinu á tímapunkti þar sem enn er hægt að hafa áhrif á útfærslu verkefnisins,“ sagði Ragna.

Afturkræfar framkvæmdir og samlegðaráhrif með vatnsafli

Landsvirkjun reisti tvær rannsóknarvindmyllur á Hafinu árið 2012 en nýtnihlutfall rannsóknarvindmyllanna tveggja er að meðaltali 44% á ársgrundvelli. Frumreikningar á orkugetu Búrfellslundar gefa til kynna að nýtnihlutfall hans gæti orðið að meðaltali um 50%. Rannsóknir staðfesta því að vindur er bæði sterkur og stöðugur innan alls framkvæmdasvæðisins og meðal þess besta sem gerist í heiminum.

Mikil samlegðaráhrif eru ennfremur með vindorku og vatnsorku. Með vindorku skapast tækifæri til að stýra orkuvinnslunni meira í vatnsaflsvirkjunum – að draga úr henni og safna vatni í uppistöðulónin þegar vindurinn blæs, en auka svo framleiðsluna þegar vindorkan dvínar. Þetta samspil gerir það að verkum að nýting vindorku í Búrfellslundi er afar hagkvæmt.

Umhverfisspor vindmylla er lítið og eru framkvæmdirnar að mestu leiti afturkræfar eins og Margrét Arnardóttir, verkefnastjóri vindorku, útskýrði:

„Verði Búrfellslundur að veruleika ráðgerum við að reka hann í 25 ár, sem er ætlaður líftími vindmyllanna á svæðinu.  Að 25 árum liðnum verður metið hvort orkuvinnslu verði haldið áfram með nýjum vindmyllum eða þær gömlu teknar niður og svæðinu skilað í fyrra horf,“ sagði Margrét.  

Helstu umhverfisáhrifin breytt ásýnd svæðisins

Í frummatsskýrslunni eru fjölmörg umhverfisáhrif til skoðunar. Helstu umhverfisáhrifin eru á ásýnd svæðisins en vindmyllurnar eru stór mannvirki og því áberandi í landslaginu. Sjónrænu áhrifanna mun helst gæta í nágrenni vindlundsins en í 25 km fjarlægð eru sjónræn áhrif talin óveruleg og önnur kennileiti orðin ráðandi í umhverfinu.

Þau umhverfisáhrif sem til skoðunar eru:

Um Búrfellslund

Búrfellslundur yrði reistur á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu, þar sem Landsvirkjun rekur nú þegar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni. Aflgeta vindlundsins væri 200 MW. Fyrirhugað er að mastur hverrar vindmyllu verði allt að 93 m hátt og þvermál spaða allt að 115 m. Reiknað er með að hámarkshæð þegar spaðar eru í efstu stöðu sé alltaf lægri en 150 m. Fjöldi vindmylla yrði um það bil 58 talsins fyrir vindmyllur með 3,5 MW aflgetu og 80 fyrir vindmyllur með 2,5 MW aflgetu.

Sjá nánari upplýsingar:

Frétt um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar

Rafræn matsskýrsla: burfellslundur.landsvirkjun.is

Fréttasafn Prenta