Frétt

Nettó skuldir lækka um 52,8 milljónir USD - Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar

29. ágúst 2014
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Rekstrartekjur námu 203,2 milljónum USD (23,4 ma.kr.) sem er 1,7% lækkun frá sama tímabili árið áður.1
  • EBITDA nam 154,9 milljónum USD (17,8 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 76,2% af tekjum, en var 79,9% á sama tímabili í fyrra.
  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 54,4 milljónum USD (6,3 ma.kr.), en var 67,1 milljón USD á sama tímabili árið áður og lækkar því um 18,9% milli ára.
  • Handbært fé frá rekstri nam 114,2 milljónum USD (13,1 ma.kr.) sem er 15,0% lækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Fjárfestingar námu 48,5 milljónum USD (5,6 ma. kr.). Handbært fé frá rekstri eftir fjárfestingar var því 65,7 milljónir USD (7,6 ma. kr.).
  • Hagnaður tímabilsins var 34,5 milljónir USD (4,0 ma.kr.).
  • Nettó skuldir lækkuðu um 52,8 milljónir USD frá áramótum og voru í lok júní 2.376,4 milljónir USD (273,3 ma.kr.).

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Á fyrri árshelmingi 2014 gekk reksturinn almennt vel þrátt fyrir tímabundnar áskoranir vegna vatnsstöðunnar. Ánægjulegt er að nettó skuldir Landsvirkjunar halda áfram að lækka en við höfum lagt mikla áherslu á það síðustu ár í ljósi skuldsetningar fyrirtækisins.

Tekjur lækkuðu frá sama tímabili í fyrra m.a. vegna þess að draga þurfti tímabundið úr framboði á ótryggri raforku vegna vatnsstöðu í miðlunarlónum í vor í samræmi við samninga við viðskiptavini sem leiddi til þess að tekjur voru um 10 milljónum USD lægri en gert var ráð fyrir. Þá hafði lægra álverð einnig áhrif á tekjur.

Ný aflstöð, Búðarhálsstöð, var  gangsett í mars og hefur rekstur hennar og orkuvinnsla staðið undir væntingum. Stefnt er að því að næstu verkefni verði á Norðausturlandi og héldu undirbúningsframkvæmdir við Þeistareykjavirkjun áfram á tímabilinu.

Eftirspurn eftir raforku á Íslandi virðist nú orðin meiri en framboð. Skrifað var undir raforkusölusamning við United Silicon um 35 MW af afli fyrir kísilmálmverksmiðju í Helguvík og hefur öllum fyrirvörum í þeim samningi verið aflétt. Þar með aukum við enn á fjölbreytileika í stækkandi viðskiptamannahópi okkar. Verkefnið mun styrkja iðnþróun á Íslandi en kísilmálmframleiðsla á góða framtíðarmöguleika hér. Skrifað var einnig undir raforkusölusamning við PCC Bakki Silicon en ekki er búið að aflétta fyrirvörum vegna hans.“

Rekstraryfirlit
Við upphaf ársins 2014 var staðan í miðlunarlónum Landsvirkjunar lág vegna mjög óhagstæðs veðurs á árinu 2013. Selt magn nam 6.340 GWh á tímabilinu, sem var undir áætlun.  Hlutur vatnsafls er um 96% í vinnslu Landsvirkjunar og hlutur jarðvarma er 4%. Engar alvarlegar truflanir áttu sér stað á tímabilinu. 

Helstu stærðir árshlutareiknings í þúsundum Bandaríkjadala:

Um árshlutareikninginn
Árshlutareikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reiknings-skilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins.

Rekstrarreikningur

Rekstrartekjur
Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrstu 6 mánuðum ársins 2014 lækkuðu um 3,5 m. USD frá sama tímabili árið áður, eða úr 206,7 m. USD í 203,2 m. USD. Lækkunin skýrist einkum af minnkun í seldu magni og lægra álverði. Meðalheildsöluverð til almenningsrafveitna (án flutningskostnaðar) var 4,4 kr./kWst á tímabilinu samanborið við 4,0 kr./kWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar var 25,0 USD/MWst en var 25,8 USD/MWst árið áður. Meðalverð til iðnaðar er reiknað með flutningskostnaði þar sem það á við. Flutningstekjur hækka á milli ára úr 24,7 m. USD í 29,5 m. USD sem skýrist aðallega af styrkingu ISK.

Rekstrargjöld
Rekstrarkostnaður án afskrifta og virðisrýrnunar nam 48,4 m. USD á tímabilinu janúar til júní 2014 en var 41,5 m. USD á sama tímabili árið áður.

Afkoma
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 154,9 m. USD. EBITDA hlutfallið er 76,2% en var 79,9% á sama tímabili árið 2013. Að teknu tilliti til afskrifta nam rekstrar­hagnaður, EBIT 99,0 m. USD en var 104,7 m. USD á sama tímabili árið áður.

Gjaldeyrismunur er jákvæður um 12,6 m. USD á tímabilinu janúar til júní 2014 en var jákvæður um 26,7 m. USD á sama tímabili árið áður. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 3,5% að teknu tilliti til ríkisábyrgðar­gjalds sem er nánast óbreytt frá árinu áður. Lágt vaxtastig á heimsmarkaði hefur haft jákvæð áhrif á afkomu fyrirtækisins.

Hluti af orkusölusamningum móðurfélagsins eru tengdir þróun álverðs. Reiknuð breyting á verðmæti þessarar innbyggðu afleiðu færist í rekstrarreikning og er 5,7 m. USD til gjalda á tímabilinu janúar til júní 2014 en var 169,5 m. USD til gjalda á sama tímabili árið áður. Gjaldeyris­munur og gangvirðisbreytingar eru að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins og eru óinnleystir fjármagnsliðir því sérgreindir í fram­setningu stjórnenda.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar það metur grunnrekstur félagsins. Hagnaðurinn nam 54,4 m. USD janúar til júní árið 2014 en var 67,1 m. USD á sama tímabili árið áður.

Hagnaður tímabilsins var 34,5 m. USD en tap 52,2 m. USD á sama tímabili árið áður.

Efnahagsreikningur

Eignir
Heildareignir Landsvirkjunar voru 4.455,7 m. USD í lok júní 2014. Handbært fé í lok júní 2014 var 215,2 m. USD. Fyrirtækið hefur aðgang að samningsbundnum veltilánum og er óádreginn hluti þeirra 293,0 m. USD. Lausafé og óádregin lán voru því alls 508,2 m. USD.

Skuldir og eigið fé
Vaxtaberandi skuldir námu 2.591,7 m. USD í lok júní 2014 og hafa lækkað um 125,5 m. USD frá árslokum 2013 þegar þær námu 2.717,2 m. USD. Að teknu tilliti til handbærs fjár þá námu nettó skuldir Landsvirkjunar 2.376,4 m. USD í lok júní en voru 2.429,2 m. USD í árslok 2013 og hafa lækkað um 52,8 m. USD. Veginn meðallíftími lánasafnsins var um 6,0 ár.

Eigið fé fyrirtækisins var 1.681,0 m. USD og hefur eiginfjárhlutfall hækkað. Það var 37,7% í lok júní 2014 en 36,3% í lok árs 2013. 

Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri samstæðunnar nam 114,2 m. USD. Fjárfestingarhreyfingar námu 48,5 m. USD þar sem framkvæmdir við Búðarhálsstöð voru fyrirferðamestar. Afborganir lána umfram lántökur námu 132,5 m. USD og greiddur arður 6,7 m. USD vegna rekstrarársins 2013. Handbært fé samstæðunnar lækkaði um 72,7 m. USD á tímabilinu og var 215,2 m. USD í lok júní.

Kennitölur
Skuldsetning samstæðunnar mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (nettó skuldir / EBITDA) hækkar úr 7,38x í árslok 2013 í 7,46x í lok júní 2014. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti nettó skuldum fer úr 10,6% í árslok 2013 í 10,2% í lok júní 2014.

Vaxtaþekjan (EBITDA / nettó vaxtagjöld) lækkar í 3,27x en var 3,51x í árslok 2013. Hlutfall veltufjár frá rekstri (FFO) á móti vaxtagjöldum lækkar úr 2,66x í lok árs 2013 í 2,42x í lok júní 2014.

Arðsemi eiginfjár reiknast frá rekstrarniðurstöðu og því geta innbyggðar afleiður og óinnleystur gjaldeyrismunur haft mikil áhrif á niðurstöðuna. Arðsemi eiginfjár var neikvæð um 2,3% árið 2013 en jákvæð um 2,9% í júnílok 2014.

Horfur í rekstri
Afkoma Landsvirkjunar mun áfram ráðast að miklu leyti af þróun álverðs, vaxta og gjaldmiðla. Tekjur Landsvirkjunar eru að hluta til tengdar verði á áli og breytingar á álverði á heimsmörkuðum hafa því áfram áhrif á framtíðartekjur Landsvirkjunar. Álverð er um þessar mundir lágt og mikil óvissa um þróun þess á næstu misserum.

Meirihluti lána fyrirtækisins ber breytilega vexti og því er áframhaldandi lágt vaxtastig mikilvægt rekstrinum.

Fréttatilkynning
Árshlutareikningur jan-júní 2014

Fréttasafn Prenta