Frétt

Niðurstöður rannsóknar á orkuöryggi kynntar

10. febrúar 2017

Nýverið lauk rannsóknarverkefni á fyrirkomulagi íslenskra raforkumála sem unnið var af háskólunum Comillas IIT í Madríd og MIT í Boston og kostað af Orkustofnun, Landsneti og Landsvirkjun. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á fundi Orkustofnunar á dögunum.

Verkefnið var tvíþætt, annars vegar var núverandi fyrirkomulag raforkumarkaðar rýnt og úrbótatillögur reifaðar og hins vegar var framkvæmd hermun á framtíðarrekstri raforkukerfisins þar sem fjölmargar sviðsmyndir voru metnar með tilliti til kostnaðar og orkuöryggis.

Þrátt fyrir það mat rannsóknaraðila að rekstur raforkukerfisins sé í ýmsum efnum með ágætum benda þeir á að þarna séu nokkur atriði sem huga ætti betur að.

  1. Skortur á skýrari löggjöf um ásættanleg viðmið hvað varðar orkuöryggi, hver ber ábyrgð á að þeim viðmiðum sé náð og hvaða verkfæri sá aðili hefur til að tryggja að svo geti orðið.
  2. Orkuöryggi almennings er ekki nægilega vel tryggt með núverandi sölufyrirkomulagi og leggja rannsóknaraðilar fram tillögu að því hvernig bæta mætti þar úr.
  3. Orkuöryggi á Íslandi er ótryggt ef það dregst að styrkja raforkuflutningskerfið. Flöskuhálsar eru í kerfinu á milli landshluta og geta þeir stuðlað að staðbundnum orkuskorti þar sem suðvesturhornið er í mestri hættu.  Nokkrar leiðir eru til að styrkja flutningskerfið og hefur hver sína kosti og galla.
  4. Vindorka er að líkindum samkeppnishæfur valkostur á við vatnsorku og jarðvarma ef tryggja á að framboð haldi í við eftirspurn og hagkvæm tækifæri kynnu einnig að leynast í því að semja um aukinn sveigjanleika orkufreks iðnaðar.
  5. Að því gefnu að erlendir aðilar fengjust til að styðja fjárhagslega við lagningu sæstrengs til Íslands kynni verkefnið að reynast hagkvæmt og um leið myndi verkefnið tryggja orkuöryggi á Íslandi umfram aðrar leiðir sem metnar voru.

Hér og hér má nálgast fréttir mbl.is af fundinum.

Fréttasafn Prenta