Frétt

Norðurál og Landsvirkjun ná samkomulagi um framlengingu orkusamnings

13. maí 2016

Landsvirkjun og Norðurál Grundartangi ehf. hafa náð samkomulagi um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna fyrir 161 MW á kjörum sem endurspegla raforkuverð á mörkuðum.

Samningsdrögin hafa verið send Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, til forskoðunar. Að henni lokinni er áformað að ljúka frágangi samningsins og senda hann til formlegrar og endanlegrar samþykktar hjá ESA.

Hinn endurnýjaði samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 MW sem er nærri þriðjungur af orkuþörf álvers Norðuráls á Grundartanga. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019 og gildir til loka árs 2023. Núgildandi samningur verður áfram í gildi til loka október 2019.

Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Endurnýjaður samningur tryggir áframhaldandi samkeppnishæfni beggja aðila. Hann er afrakstur mikillar vinnu sem styrkt hefur viðskiptasamband aðila og skilning þeirra á aðstæðum hvors annars. Samningurinn er afar ánægjulegur áfangi í samstarfi fyrirtækjanna sem á sér 20 ára farsæla sögu.“

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls:

„Við erum ánægð að hafa náð samkomulagi um kjör á þessari fjögurra ára framlengingu. Landsvirkjun hefur verið góður og áreiðanlegur samstarfsaðili okkar á Grundartanga frá upphafi. Þessi samningur er mikilvæg undirstaða fyrir frekari þróun framleiðslunnar en við erum um þessar mundir að skoða fjárfestingu í nýjum steypuskála á Grundartanga sem mun auka verulega fjölbreytileika í vöruframboði okkar.“

Fréttasafn Prenta