Norræni orku­markaðurinn

20.11.2020Fjármál

Norræni uppboðsmarkaðurinn með raforku, Nord Pool, var stofnaður árið 1996 og hefur síðan þá verið einn virkasti slíki markaður í heimi. Þegar talað er um Nord Pool í daglegu tali er verið að vísa til meðalraforkuverðs í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, en markaðurinn teygir þó anga sína víðar og nær í dag til 21 lands. Orkunotkun á Nord Pool svæðinu nemur alls um 400 TWst á ári. Verð er fest til eins árs á fjórðungi þess magns í gegnum fjármálasamninga og um 1/8 tvö ár fram í tímann samkvæmt greiningu sem danska fyrirtækið Copenhagen Economics gerði. Viðskipti eru mjög lítil lengra fram í tímann, t.d. er aðeins búið að semja um verð til 5 ára á magni sem jafngildir tæplega einni Kárahnjúkavirkjun eða um 1% af markaðnum.

Norræni uppboðsmarkaðurinn með raforku, Nord Pool, var stofnaður árið 1996 og hefur síðan þá verið einn virkasti slíki markaður í heimi. Þegar talað er um Nord Pool í daglegu tali er verið að vísa til meðalraforkuverðs í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi, en markaðurinn teygir þó anga sína víðar og nær í dag til 21 lands. Orkunotkun á Nord Pool svæðinu nemur alls um 400 TWst á ári. Verð er fest til eins árs á fjórðungi þess magns í gegnum fjármálasamninga og um 1/8 tvö ár fram í tímann samkvæmt greiningu sem danska fyrirtækið Copenhagen Economics gerði. Viðskipti eru mjög lítil lengra fram í tímann, t.d. er aðeins búið að semja um verð til 5 ára á magni sem jafngildir tæplega einni Kárahnjúkavirkjun eða um 1% af markaðnum.

Verðmyndun

Það heyrist oft að á Nord Pool markaði gefist færi á að semja til langs tíma á hagstæðara verði en bjóðist hér á landi. Þetta er ekki rétt líkt og kom fram í skýrslu þýska fyrirtækisins Fraunhofer um samkeppnishæfni raforkuverðs til stórnotenda á Íslandi. Verðmyndun á Nord Pool fer þannig fram að kaupendur og seljendur setja inn tilboð um kaup- og söluverð á hverri klukkustund. Verðið á hverri klukkustund er svo ákvarðað út frá bestu boðum. Vegna tenginga Skandinavíu við aðra markaði á meginlandi Evrópu og í Bretlandi er algengt að verð á Norðurlöndunum ráðist af jaðarkostnaði gas- og kolaorkuvera sem enn eru ráðandi á þeim mörkuðum.

Noregur er, líkt og Ísland, land með miklar auðlindir endurnýjanlegra orkugjafa. Þar er vatnsafl ráðandi og meira en 90% af raforkuvinnslu Norðmanna koma frá vatnsorkuverum. Framboð vatnsafls ræðst af náttúrlegum þáttum eins og veðurfari og hefur veðurfar í Noregi í ár verið með þeim hætti að það var heitara og blautara en í meðalári sem orsakar mikið framboð vatnsafls. Þetta mikla framboð orku frá vatnsorkuverum auk mikillar uppbyggingar vindorku undanfarin ár orsakaði mikið umframframboð á Nord Pool markaðnum í upphafi árs. Vegna þessa lækkuðu verð skarpt í upphafi árs. Við það bættist svo að samdráttur í eftirspurn vegna kórónuveirunnar lækkaði verðið enn frekar. Í júlí var meðalverðið hið lægsta frá stofnun markaðarins, 2,35 EUR/MWst. Til samanburðar þá var meðalverðið um 39 EUR/MWst árið 2019 og 36 EUR/MWst síðustu 10 ár. Það sem af er þessu ári hefur meðalverðið á Nord Pool verið rúmlega 10 EUR/MWst eða um 12 USD/MWst. Norska greiningarfyrirtækið Wattsight, sem gefur reglulega út spár um langtímaverð á Nord Pool, spáir því að verðið til lengri tíma sé á bilinu 40-45 EUR/MWst eða 47-53 USD/MWst.

Íslensk orkufyrirtæki eiga í alþjóðlegri samkeppni um viðskipti stórnotenda raforku. Helsta samkeppni Íslendinga hefur komið frá Norðurlöndunum á undanförnum árum. Þar hefur vinnsla á endurnýjanlegum orkugjöfum stóraukist, samhliða aukinni eftirspurn nýrra stórnotenda, t.d. gagnavera. Þess vegna horfa íslensku orkufyrirtækin m.a. til verðlagningar á raforku á hinum Norðurlöndunum, sem fer m.a. í gegnum Nord Pool markaðinn, við verðlagningu á íslenskri raforku.

Afar lítil viðskipti fram í tímann

Þegar rætt er um verð á Nord Pool markaðnum einhver ár fram í tímann þá er slíkt hrein ágiskun, unnin með reiknilíkönum, því engin raunveruleg viðskipti eru þar að baki til að styðjast við.

Á meðfylgjandi mynd úr skýrslu Copenhagen Economic eru tölur sem sýna magn útistandandi afleiðusamninga fram í tímann. Sé þetta skoðað sem hlutfall af raforkunotkun á Nord Pool markaðnum sést að verð hefur verið fest í gegnum afleiðusamninga fyrir 24% eitt ár fram í tímann, 12% í tvö ár, 4% þrjú ár og minna en 2% fjögur ár og lengra fram í tímann. Sé þetta skoðað í samhengi við stærð stærstu virkjunar Íslands, Kárahnjúkavirkjunar, kemur í ljós að gerðir hafa verið samningar sem jafngilda aðeins einni slíkri virkjun 5 ár eða lengra fram í tímann.

Heimild: https://www.copenhageneconomics.com/dyn/resources/Publication/publicationPDF/5/535/1590392515/copenhagen-economics_changed-trading-behaviour-in-long-term-power-trading.pdf

Höfundur greinar er Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar.