Frétt

Norsk Hydro ASA býður í öll hlutabréf Rio Tinto á Íslandi hf.

27. febrúar 2018

Norski álframleiðandinn Norsk Hydro ASA hefur tilkynnt að félagið hafi gert skuldbindandi tilboð í öll hlutabréf Rio Tinto á Íslandi hf., sem á og rekur álverið í Straumsvík (ÍSAL). Norsk Hydro gerir ráð fyrir því að viðskiptunum verði lokið á öðrum ársfjórðungi 2018. Að öðru leyti vísast í tilkynningu á vefsíðu Norsk Hydro ASA.

Norsk Hydro ASA var stofnað árið 1905 og er um 34% í eigu norska ríkisins. Félagið hefur langa reynslu af rekstri álverksmiðja og er með um 35.000 starfsmenn í 40 löndum. Lánshæfismat félagsins er BBB hjá Standard og Poor‘s og Baa2 hjá Moody‘s.

Viðskiptasamband Landsvirkjunar og álverksmiðjunnar í Straumsvík á sér langa og farsæla sögu, en árið 1966 var álverið fyrsti stórnotandinn til að gera rafmagnssamning við Landsvirkjun. Rio Tinto á Íslandi hf. er annar stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar. Núverandi rafmagnssamningur aðila, sem er frá árinu 2010 og gildir til ársins 2036, hljóðar upp á um 390 MW af afli.

Fréttasafn Prenta