Ný arðgreiðslu­stefna samþykkt

07.05.2020Fyrirtækið

Stjórn Landsvirkjunar samþykkti nýja arðgreiðslustefnu á fundi sínum 20. apríl 2020. Markmið með nýrri stefnu er að eigandi fyrirtækisins, íslenska ríkið, fái eðlilegan arð af eign sinni í Landsvirkjun, en um leið að fyrirtækið viðhaldi nauðsynlegum fjárhagslegum styrkleika til að sinna skyldum sínum og hlutverki sem leiðandi orkufyrirtæki á íslenskum raforkumarkaði.

Stjórn Landsvirkjunar samþykkti nýja arðgreiðslustefnu á fundi sínum 20. apríl 2020. Markmið með nýrri stefnu er að eigandi fyrirtækisins, íslenska ríkið, fái eðlilegan arð af eign sinni í Landsvirkjun, en um leið að fyrirtækið viðhaldi nauðsynlegum fjárhagslegum styrkleika til að sinna skyldum sínum og hlutverki sem leiðandi orkufyrirtæki á íslenskum raforkumarkaði.

Stefnan skilgreinir ákveðna reiknireglu sem tekur mið af handbæru fé frá rekstri og fjárfestingum á hverju uppgjörsári, auk kennitölu um skuldsetningu í lok sama uppgjörsárs. Niðurstaðan skilgreinir grunn fyrir hámarksarðgreiðslu næsta árs.

Byggt á uppgjöri samstæðu Landsvirkjunar fyrir árið 2019 er reiknuð hámarksarðgreiðsla ársins 2020 um 74 milljónir Bandaríkjadala, eða jafnvirði um 10 milljarða króna. Á aðalfundi félagsins 22. apríl samþykktu eigendur tillögu stjórnar um arðgreiðslu til íslenska ríkisins um þessa fjárhæð á árinu 2020.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Með batnandi fjárhagsstöðu og minni skuldsetningu undanfarinna ára er ljóst að arðgreiðslugeta félagsins hefur aukist verulega. Hagsmunaaðilar, þá einkum lánveitendur og lánshæfismatsfyrirtæki, hafa kallað eftir eiginlegri arðgreiðslustefnu frá fyrirtækinu.

Úr því hefur nú verið bætt með því að stjórn Landsvirkjunar samþykkti formlega arðgreiðslustefnu á stjórnarfundi þann 20. apríl síðastliðinn. Það er mat Landsvirkjunar að með nýrri stefnu verði því markmiði náð að eigendur fái greiddan eðlilegan arð í samræmi við fjárhagslegan styrk félagsins og getu til að ráðast í fjárfestingar.“

Skoða arðgreiðslustefnuna