Frétt

„Nýir möguleikar í norrænum orkuskiptum“

18. maí 2017
Hörður hélt erindi á ráðstefnu Statkraft, „Nýir möguleikar í norrænum orkuskiptum“. Mynd: Thomas Barstad Eckhoff.
Bente E. Engesland, framkvæmdastjóri samskipta hjá Statkraft, stýrði umræðum með forstjórum Fortum, Statkraft, Landsvirkjunar og Vattenfall. Mynd: Thomas Barstad Eckhoff.
Hörður hélt erindi á ráðstefnu Statkraft, „Nýir möguleikar í norrænum orkuskiptum“. Mynd: Thomas Barstad Eckhoff.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hélt erindi á ráðstefnu Statkraft í Noregi í síðustu viku. Yfirskrift ráðstefnunnar var „Nýir möguleikar í norrænum orkuskiptum“ og sat hann að erindinu loknu fyrir svörum ásamt Christian Rynning-Tønnesen forstjóra Statkraft frá Noregi, Magnus Hall forstjóra Vattenfall frá Svíþjóð og Pekka Lundmark forstjóra Fortum frá Finnlandi, þar sem ræddar voru horfur og áskoranir í orku- og loftslagsmálum. Einnig hélt Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, ræðu á ráðstefnunni um stefnu þarlendra stjórnvalda í orkuskiptum.

Í erindi sínu kynnti Hörður stöðu og skipan orkumála á Íslandi og rakti m.a. hvernig orkuskipti hér á landi fóru fram á efnahagslegum forsendum, þegar raforkuvinnsla og húshitun færðust úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega orkugjafa – vatnsafl og jarðvarma. Þannig hafi þjóðarbúið sparað miklar upphæðir og tryggt heimilum og fyrirtækjum lágt raforku- og hitaveituverð, auk minni mengunar en ella. Einstakar orkulindir og endurnýjanleg orka væru grundvöllur lífsgæða á Íslandi.

Hörður rakti hvernig eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku frá Landsvirkjun hefði farið vaxandi undanfarin ár, frá fjölbreyttu atvinnulífi, og nú væri svo komið að eftirspurn væri meiri en framboð. Ekki væri fyrirsjáanlegt að þessi aukning eftirspurnar færi minnkandi í náinni framtíð.

Að síðustu fjallaði Hörður um loftslagsmál og sagði áskoranir Íslendinga vera miklar í þeim efnum. Vegna uppgangs í efnahagslífi og mikils hagvaxtar, auk þess sem þjóðin hefði þegar verið komin langt í orkuskiptum, þá væri það krefjandi að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Parísarsamkomulaginu frá 2015. Þar yrðu atvinnulíf, almenningur og stjórnvöld að leggjast á eitt.

Hér má nálgast frásögn af ráðstefnunni á vef Statkraft.

Fréttasafn Prenta