Frétt

Nýr rammasamningur fyrir skuldabréfaútgáfur

29. júlí 2013
Búrfellsstöð á suðurlandi

Þann 26. júlí sl. undirritaði Landsvirkjun nýjan EMTN (e. Euro Medium Term Note) rammasamning um alþjóðlegar skuldabréfaútgáfur, án ríkisábyrgðar. Heildarfjárhæð rammasamningsins er 1 milljarður Bandaríkjadala, eða um 120 milljarðar króna. Fyrirtækið er með annan EMTN rammasamning að fjárhæð 2,5 milljarða Bandaríkjadala, um 300 milljarða króna, en sá samningur er fyrir skuldabréf gefin út með ríkisábyrgð.

Með tilkomu nýja rammasamningsins er Landsvirkjun með tvo rammasamninga fyrir skuldabréfaútgáfur, annars vegar með ríkisábyrgð og hins vegar án ríkisábyrgðar. Engin skuldabréf hafa verið gefin út af Landsvirkjun undir nýja rammasamningnum.

Lánshæfismatseinkunnir vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð eru óbreyttar og hefur þessi nýji rammasamningur engin áhrif á núverandi skuldabréf Landsvirkjunar.

Matsfyrirtækið Standard&Poor´s gaf nýja rammasamningnum án ríkisábyrgðar BB í matseinkunn sem er jafnframt sama einkunn og rammasamningurinn með ríkisábyrgð. Matsfyrirtækið Moody´s gaf nýja rammasamningnum án ríkisábyrgðar Ba2 í matseinkunn sem er tveimur þrepum fyrir neðan núverandi einkunn rammasamningsins með ríkisábyrgð.

Umsjónaraðilar rammasamningsins voru Barclays Capital, Citigroup, SEB, JP Morgan og UBS.

Fréttasafn Prenta