Frétt

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsaáhrifum

8. desember 2015

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, getur þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og er ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í grein sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ritar og birtist í Fréttablaðinu í dag.

Á sama tíma fer fram í París alþjóðleg stefnumörkun á sviði loftslagsmála á fundi aðildarrríkja lofslagssamnings SÞ (COP21). Ísland er þátttakandi á vegum Umhverfisráðuneytisins.

Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, HS Orka og Fjárfestingasvið Íslandsstofu hafa samstarf um þátttöku á Sustainable Innovation Forum ráðstefnunni. Forseti Íslands tekur einnig þátt í ráðstefnunni og flytur ávarp þar. Ráðstefnan er hliðarráðstefna loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP21).

Hörður Arnarson tók í gær þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni undir heitinu „De-carbonising Global Energy Supply: Renewable Energy and Low Carbon Opportunities“

Í pallborðsumræðunum ræddi Hörður meðal annars um einstakt orkuumhverfi Íslands þar sem öll orka er unnin úr endurnýjanlegum orkugjöfum og þjóðin á marga hagkvæma kosti sem hún getur kosið að nýta til frekari endurnýjanlegrar orkuvinnslu. Hörður ræddi einnig mikilvægi samtengingu orkukerfa sem stuðlar að bættri nýtingu auðlindanna og er talinn mikilvægur þáttur í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hörður flutti jafnframt kynningu sem heitir „Opportunities for Innovation in the Energy Sector” á undirviðburði COP21 sem fjallar um jarðhitanýtingu. 

Fréttasafn Prenta