Frétt

Nýtt fyrirkomulag samninga við sölufyrirtæki rafmagns 2017

12. desember 2016
 • Nýir samningar leiða til sparnaðar í aflkaupum sölufyrirtækja
 • Meðalverð til sölufyrirtækja rafmagns lækkar um 2,6% miðað við áætlanir

Landsvirkjun hefur unnið að gerð nýrra samninga með sölufyrirtækjum rafmagns sem selja raforku áfram til heimila og fyrirtækja. Um er að ræða nýtt fyrirkomulag samninga sem taka gildi um næstu áramót. Þetta nýja fyrirkomulag felur í sér mikilvæga breytingu fyrir Landsvirkjun því um leið og það tekur gildi renna út samningar sem voru gerðir árið 2005 og hafa gilt í 12 ár.  

Með nýju fyrirkomulagi samninga þurfa sölufyrirtækin ekki lengur að binda aflkaup sín yfir heilt ár í senn. Rafmagnsnotkun er að jafnaði minni yfir sumarmánuðina og því geta sölufyrirtækin náð verulegri hagræðingu í innkaupum sínum með því að kaupa minna afl á þeim tíma. Landsvirkjun getur nýtt tækifærið og skipulagt viðhaldsverkefni betur en áður og selt afl með styttri fyrirvara þeim sem á þurfa að halda. Nýja fyrirkomulagið bætir þannig nýtingu orkuauðlinda landsins og eykur sveigjanleika orkufyrirtækja til að bregðast við breyttum aðstæðum í rekstri.

Samkvæmt áætlunum sölufyrirtækjanna um innkaup rafmagns til endursölu til heimila og smærri fyrirtækja mun meðalverð lækka um 2,6% á föstu verðlagi milli ára með tilkomu nýju samninganna.

Helstu atriði:

 • Sparnaður í aflkaupum:
  • Sölufyrirtæki rafmagns sem eru í viðskiptum við Landsvirkjun þurfa ekki lengur að binda aflkaup sín fyrir heilt ár í senn. Þetta mun leiða til betri nýtingar afls ásamt lægri heildaraflskostnaði yfir árið hjá viðskiptavinum.
 • Hagræðing yfir sumartímann:
  • Þar sem aflskuldbinding sölufyrirtækjanna mun minnka umtalsvert yfir sumarmánuðina getur Landsvirkjun nýtt tækifærið og skipulagt viðhaldsverkefni og selt afl með styttri fyrirvara þeim sem á þurfa að halda.
 • Lægra meðalverð:
  • Meðalverð Landsvirkjunar til sölufyrirtækja rafmagns mun lækka um áramót miðað við áætlanir frá fyrirtækjunum um rafmagnskaup á næsta ári á rafmagni til endursölu til heimila og smærri fyrirtækja.
 • Raforkumagn:
  • Samkvæmt áætlunum minnkar selt magn í heildsölu lítillega en samtals selur Landsvirkjun um 1,9 TWst árlega til sölufyrirtækjanna.

Forsaga:

Landsvirkjun selur ekki rafmagn beint til heimila eða smærri fyrirtækja heldur á heildsölumarkaði til sölufyrirtækja sem selja það áfram til endanotenda. Sölufyrirtækin kaupa hluta orku sinnar af Landsvirkjun en vinna einnig hluta í eigin virkjunum. Um 20% af rafmagnssölu Landsvirkjunar eru seld með þessum hætti, en 80% fara til stórnotenda.

Landsvirkjun gerði stóra rafmagnssamninga við sex sölufyrirtæki um sölu á raforku árið 2005. Það var gert í kjölfar nýrra raforkulaga. Samningarnir voru til eins, fimm, sjö og tólf ára. Nú um áramótin renna út samningarnir sem voru til tólf ára. Þar er um að ræða rúmlega 1 TWst. Sölufyrirtækin eru Orkusalan, Orka náttúrunnar, HS Orka, Fallorka, Orkubú Vestfjarða og Rafveita Reyðarfjarðar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Nýtt fyrirkomulag og nýir samningar við okkar góðu viðskiptavini á heildsölumarkaði hafa í för með sér bætta nýtingu raforkukerfisins. Meðalverð til viðskiptavina á heildsölumarkaði lækkar, miðað við áætlanir þeirra um innkaup á næsta ári. Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku frá Landsvirkjun er núna meiri en framboð. Þess vegna er afar mikilvægt að ná sem bestri nýtingu á því afli sem er til staðar í kerfinu, í samræmi við hlutverk fyrirtækisins, sem er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“

Magnús Kristjánsson, forstjóri Orkusölunnar:

„Nýir samningar Landsvirkjunar og Orkusölunnar gera Orkusölunni kleift að nýta afl raforkukerfisins betur ásamt því að eiga auðveldara með að bregðast við veðurfarsbreytingum með betra aðgengi að skammtímakaupum. Það er stórt skref að geta brugðist við óvæntum breytingum í veðurfari með skammtímakaupum í stað þess að binda óvissuna í aflkostnaði yfir allt árið.“

Andri Teitsson, framkvæmdarstjóri Fallorku:

„Með þessum nýju samningum verður auðveldara fyrir Fallorku að bregðast við breyttum aðstæðum, svo sem vegna veðurfars,  og sýna sveigjanleika í rekstri. Með tilkomu nýs viðskiptavefs munu öll skammtímaviðskipti verða mun fljótlegri í framkvæmd ásamt því að verðsýnileiki mun auðvelda okkur að ákvarða besta mögulega kaupmynstrið á hverjum tíma.“

Um heildsölumarkað raforku

Til fróðleiks hefur Landsvirkjun tekið saman almennar upplýsingar um rafmagnsvinnslu og sölu rafmagns á Íslandi. Þar má m.a. sjá hvernig rafmagnsreikningur heimila og fyrirtækja er samsettur: sjá nánar hér.

Kynningu frá fundinum má skoða hér.

Fréttasafn Prenta