Orkídea, nýtt samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi

10.07.2020Fyrirtækið

Hér eru mikil og ónýtt tækifæri og þessu verkefni er ætlað að virkja það hugvit og auðlindir sem við erum svo rík af og verða tvímælalaust ...

Eva Björk Harðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Eva Björk Harðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

"Hér eru mikil og ónýtt tækifæri og þessu verkefni er ætlað að virkja það hugvit og auðlindir sem við erum svo rík af og verða tvímælalaust grundvöllur að hringrásarhagkerfinu og hagsæld íslensku þjóðarinnar í framtíðinni. Við hjá Landsvirkjun erum stolt að hafa leitt saman þann öfluga hóp, sem stendur að baki Orkídeu," segir Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, í tilefni af því að nýju verkefni var hleypt af stokkunum í dag.

Orkídeu, nýju samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi, hefur verið ýtt úr vör með undirskrift fulltrúa allra þeirra sem að verkefninu standa, en það eru Landsvirkjun, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóli Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Orkídea snýst um uppbyggingu orkutengdra tækifæra framtíðarinnar á Suðurlandi, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sjálfbæra nýtingu auðlinda, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði til að taka á móti orkutengdri nýsköpun. Eitt meginmarkmiða samstarfsins er að auka verðmætasköpun í matvælaframleiðslu í landinu og gera framleiðsluna umhverfisvænni með nýtingu á grænni orku sem býr þannig til tækifæri fyrir íslenska matvælaframleiðendur til að vera samkeppnishæfir á alþjóðamarkaði.

Ætlunin er að stuðla að aukinni nýsköpun og rannsóknum á sviði hátæknimatvælaframleiðslu með öflugu samstarfi við háskóla, rannsóknastofnanir og atvinnulíf og fjölga möguleikum svæðisins til að takast á við áskoranir samtímans og gera svæðið leiðandi þegar kemur að samspili orku, umhverfis og samfélags.Heiti samstarfsverkefnisins, Orkídea, vísar bæði til grænu orkunnar og til þeirrar hugmynda – ídea – sem spretta upp í frjóum farvegi. Auglýst verður eftir framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra fljótlega, en starfsstöð Orkídeu verður á Suðurlandi.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Aukin verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu með nýtingu á grænni orku er eitt af þeim stóru tækifærum sem blasa við okkur Íslendingum. Við sem matvælaþjóð, byggjum afkomu okkar öfluga samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti bæði til sjós og lands, höfum alla burði til að vera í fararbroddi á þessu sviði á heimsvísu. Ábyrgð stjórnvalda er að skapa skilyrði og farveg til þess að svo megi verða. Því er stofnun Orkídeu frábært skref að því markmiði og ég bind vonir við að verkefnið ýti enn frekar undir þá sókn sem framundan er í íslenskri matvælaframleiðslu.“

Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar:

„Nýsköpun og bætt nýting náttúruauðlinda hefur sennilega sjaldan verið mikilvægari fyrir okkur Íslendinga, í ljósi efnahagsástandsins nú um stundir. Á þessum fordæmalausu tímum megum við ekki leggja árar í bát, heldur verðum við að snúa vörn í sókn. Hér eru mikil og ónýtt tækifæri og þessu verkefni er ætlað að virkja það hugvit og auðlindir sem við erum svo rík af og verða tvímælalaust grundvöllur að hringrásarhagkerfinu og hagsæld íslensku þjóðarinnar í framtíðinni. Við hjá Landsvirkjun erum stolt að hafa leitt saman þann öfluga hóp, sem stendur að baki Orkídeu.“

Eva Björk Harðardóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga:

„Tilurð samstarfsverkefnisins Orkídeu er rökrétt framhald af mörkun stefnu fyrir Suðurland í Sóknaráætlun Suðurlands 2020 – 2024 og orkustefnu fyrir landshlutann. Í Sóknaráætluninni er m.a. tilgreint að á Suðurlandi sé öflugt atvinnulíf með aukinni nýsköpun, framleiðni og fjölbreyttum atvinnutækifærum. Heimamenn sjá landshlutann fyrir sér á árinu 2024 þannig að: Á Suðurlandi hefur aukin nýsköpun, framleiðni og fjölgun fyrirtækja leitt af sér öflugra atvinnulíf. Mannlíf og lífsgæði á Suðurlandi blómstra með aukinni velferð, lifandi menningu og stóraukinni samvinnu. Kolefnisspor Suðurlands hefur dregist saman með bættri umhverfisvitund og breyttu neyslumynstri.Suðurland hefur m.a. yfir að ráða miklum náttúruauðlindum, mannauði og öflugri matvælaframleiðslu. Samstarfsverkefnið gerir okkur kleift að nýta þau sóknarfæri sem eru til staðar með öflugum samstarfsaðilum, Sunnlendingum og Íslendingum öllum til heilla.“

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands:

„Landbúnaðarháskóli Íslands fagnar stofnun Orkídeu og því formlega samstarfi sem komið hefur verið á fót. Íslendingar eiga mikil tækifæri til nýsköpunar og aukinnar matvælaframleiðslu með nýtingu hreinnar orku og annarra náttúruauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi. Orkídea styður beint við stefnu Landbúnaðarháskólans sem samþykkt var á síðasta ári þar sem horft er til þess að efla nýsköpun, rannsóknir og kennslu á öllum skólastigum og mun eiga þátt í því að efla starfsemi skólans á Suðurlandi með því að styrkja og byggja upp innviði og bæta enn frekar nýtingu þeirra.“