Frétt

Orkusalan og Landsvirkjun semja um vottun vegna endurnýjanlegrar raforku

31. maí 2016

Landsvirkjun og Orkusalan hafa hafið samstarf um vottun vegna endurnýjanlegrar raforkuvinnslu með samevrópska upprunaábyrgðakerfinu. Orkusalan er einn stærsti heildsölukaupandi orku af Landsvirkjun og selur hana áfram til fyrirtækja og heimila. Í kjölfar samkomulagsins munu allir viðskiptavinir Orkusölunnar fá vottun um að rafmagnið sem þeir kaupa sé unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sífellt fleiri fyrirtæki vinna eftir sérstakri umhverfisstefnu sem mótuð er í kringum starfsemi þeirra og eykur það kröfur á birgja og viðskiptavini fyrirtækjanna, meðal annars um stuðning við endurnýjanlega orkuvinnslu.

Hvað eru upprunaábyrgðir?

Þjóðir heims eru sammála um að loftslagsmál séu eitt allra mest aðkallandi mál samtímans, eins og staðfest var á loftslagsfundinum í París á síðasta ári. Upprunaábyrgðir eru liður í viðleitni Evrópusambandsins til að berjast gegn loftslagsbreytingum.

Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Með upprunaábyrgðum geta raforkunotendur á Íslandi og í Evrópu, jafnt heimili sem fyrirtæki, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Upprunaábyrgðir eru notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.

Upprunaábyrgðakerfið gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku, en notkun hennar hefur í för með sér mun minni losun gróðurhúsalofttegunda en notkun jarðefnaeldsneytis. Kerfinu er ætlað að vera fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu með það að markmiði að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.

Landsvirkjun er reiðubúin til samstarfs um upprunaábyrgðir við aðra viðskiptavini í heildsölu ef eftir því er óskað. Nánari upplýsingar um  upprunaábyrgðir og alþjóðlegar umhverfisvottanir má nálgast á vef Landsvirkjunar: http://landsvirkjun.is/vorurogthjonusta/upprunaabyrgdir

Fréttasafn Prenta