Frétt

Óvenjukaldur júlí hefur neikvæð áhrif á vatnsbúskap

5. ágúst 2015

Maí og júní reyndust kaldir mánuðir á Austurlandi. Samanburður við mælingar af Brúarjökli frá 2001 fram til dagsins í dag leiddi þó í ljós að hvorugur þeirra var án fordæma. Maí var nokkuð í takt við mælingar frá 2005 og júní keimlíkur 2001. Í lok júní var búist við að staðan gæti breyst hratt, með hækkandi hita færi bráðnun í gang og rennsli ykist. Veðurfar í júlí einkenndist hinsvegar af ríkjandi norðanáttum með kuldum og skýjuðu veðri. Afrennsli af jöklinum jókst einungis lítillega en hiti og sólgeislun á neðri hluta Brúarjökuls hafa ekki áður mælst jafn lág í júlí. Rennsli Jökulsár á Dal hefur verið mælt allt frá árinu 1963. Meðalrennsli fyrir síðastliðinn júlí mánuð var um 180 m3/s en það er lægsta rennsli miðað við sama mánuð allt frá upphafi mælinga og aðeins tæpur helmingur meðalrennslis. Leita þarf aftur til ársins 1993 til að finna viðlíka meðalrennsli í júlí í Jökulsá á Dal en þá mældist rennslið 210 m3/s. Sá mánuður var kaldur á Austurlandi og var meðalhiti á Egilsstöðum 7,5°C en í ár mældist hann svipaður eða 7,6°C. Meðalhiti í júlí á Egilsstöðum frá 1963 er 10,6°C.

Nokkuð svipaða sögu er að segja af Blöndusvæði. Hiti á Hveravöllum hefur ekki mælst jafn lágur síðan í júlí 1993, líkt og á Austurlandi. Innrennsli Blöndulóns var í takt við veðráttuna en meðal innrennsli í júlí var 49 m3/s sem er lægsta innrennsli í júlí síðastliðinn áratug.

Aðstæður á Þjórsársvæði í maí voru keimlíkar aðstæðum fyrir norðan og austan, kalt og lítið rennsli. Sá mikli snjór sem safnast hafði á svæðinu hélst því nokkuð stöðugur allt fram í júní þegar lofthiti fór að stíga. Rennsli Þjórsár og Tungnaár hefur verið mælt frá árunum 1988 og voru mánuðirnir júní og júlí nokkuð svipaðir og í meðalári. Kalt hefur verið á Þjórsár-Tungnaársvæðinu í júní og júlí en þar hefur hinn mikli snjór sem safnaðist fyrir síðastliðinn vetur hjálpað til við fyllingu lóna. Nú hefur allan snjó tekið upp og rennsli síðsumars mun stjórnast af úrkomu og jökulbráð.

Þessi niðurstaða fyrir júlímánuð hefur gerbreytt horfum fyrir fyllingu miðlunarlóna Landsvirkjunar eins og þær voru settar fram í upphafi júlí.  Skortur á jökulbráð hefur valdið því að Hálslón hefur aðeins hækkað um tæpa 10 m í júlí og stendur nú í 593 m y.s. eða 37% fylling. Það vantar því yfir 30m að það fyllist í haust og nú eru innan við helmingslíkur að það gerist.

Svipaða sögu er að segja með Blöndulón, fylling þar hefur nánast stöðvast seinni hluta júlí og er nú um 55%.  

Besta staðan er á Þjórsársvæðinu.  Þórisvatn og Hágöngulón eru aðeins yfir væntingum frá í byrjun júlí og fyllingin er nú um 78%.

Í ljósi þessarar breyttu stöðu hefur Landsvirkjun hagað vinnslu kerfisins með það að markmiði að auka sem mest líkur á að staða Hálslóns verði viðunandi í haust.

Hagstætt veðurfar í ágúst og september getur breytt talsverðu um vatnsstöðu Landsvirkjunar. Ef innrennsli heldur áfram að vera nálægt lægstu mörkum fram eftir hausti gæti þurft að minnka afhendingu á raforku í upphafi vetrar.

Sjá einnig frétt Veðurstofu Íslands um slæmt tíðarfar í júlí frá 4. ágúst sl.
Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar

Fréttasafn Prenta