Frétt

Rætur jarðhitakerfa rannsakaðar

20. júní 2013

Skrifað hefur verið undir samninga um samstarfsverkefnið „Deep Roots of Geothermal Systems“ (DRG), sem unnið er að á vegum GEORG rannsóknarklasa í jarðhita og stutt með fjárframlögum frá GEORG, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku, Landsvirkjun og Iceland Deep Drilling Project (IDDP).   

Markmið verkefnisins er að skilja tengsl vatns og kviku í rótum eldfjalla og hvernig varmi berst þaðan upp til jarðhitakerfanna og viðheldur orku þeirra. Jafnframt verður hugað að hönnun á borholum fyrir hærri hita en hingað til og aðferðum til að nýta yfirhitaða gufu af miklu dýpi.

Rannsóknirnar munu fara fram á vegum þriggja hópa með fulltrúum háskóla, rannsóknarstofnana, verkfræðistofa og orkuiðnaðarins. Beitt verður fremstu tækni í landmælingum, viðnámsmælingum og jarðskjálftamælingum, bergfræði og jarðefnafræði.  Einnig verða þróuð ný hermilíkön fyrir varmaflutning, rekstur borholna og nýtingu háhitagufu. Mikil áhersla verður á þjálfun ungra vísindamanna til verka á þessu sviði. 

Samstarfsaðilar hafa heitið beinum stuðningi við þetta verkefni sem nemur 99 milljónum króna á þremur árum. Auk þess leggja þeir til stuðning frá öðrum verkefnum á þeirra vegum.

GEORG er alþjóðlegt klasasamstarf um rannsóknir og þróun í jarðhita sem stofnað var til árið 2009 með styrk úr markáætlun Vísinda- og tækniráðs.  Að samstarfinu standa 22 innlendir og erlendir aðilar; háskólar, vísindastofnanir og fyrirtæki á sviði jarðvísinda og jarðhitanýtingar.

Nánar má kynna sér samstarfsverkefnið og starfsemi GEORGS á eftirfarandi síðu: http://www.georg.hi.is/

Fréttasafn Prenta