Innrennsli til miðlunarlóna Landsvirkjunar hefur aukist umtalsvert á síðustu dögum og gera spár ráð fyrir áframhaldandi auknu innrennsli.
Staðan í vatnsbúskapnum hefur nú vænkast það mikið að Landsvirkjun telur óhætt að hefja á ný afhendingu til þeirra viðskiptavina sem hafa þurft að sæta skertri afhendingu. Þeim verður heimilt frá og með 1. maí að auka notkun sína á rafmagni sem nemur helmingi þess magns sem skert var. Vonast er til að hægt verði síðar í maímánuði, eða eins fljótt og verða má, að aflétta skerðingum að fullu.
Eins og kunnugt er hóf Landsvirkjun skerðingar á afgangsorku til stórnotenda og jafnorku til húshitunar undir lok febrúar.
Afgangsorka er vara sem Landsvirkjun er heimilt að skerða afhendingu á þegar vatnsbúskapur er slakur og er magn þess umsamið við hvern viðskiptavin eins og honum þykir henta sínum rekstri. Með því að hafa aðgang að slíkum skilmálum á afhendingu rafmagns, gefst Landsvirkjun í samstarfi við viðskiptavini sína kostur á að stunda hagkvæma raforkuöflun til hagsbóta fyrir viðskiptavinina til langs tíma.