Raforkuverð til stóriðjunnar er samkeppnis­hæft

13.11.2020Viðskipti

„Þessi niðurstaða staðfestir það sem við hjá Landsvirkjun höfum talið okkur vita, að við bjóðum grænu orkuna okkar á samkeppnishæfu verði. Það er gott að fá það staðfest af sérfróðum, óháðum aðila,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um niðurstöðu skýrslu um samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi með tilliti til raforkukostnaðar.

Álver og gagnaver búa við samkeppnishæft raforkuverð á Íslandi – raforkuverð sem hefur almennt ekki neikvæð áhrif á samkeppnishæfni stóriðjunnar hér á landi. Þetta er meginniðurstaða úttektar sem unnin var að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. „Þessi niðurstaða staðfestir það sem við hjá Landsvirkjun höfum talið okkur vita, að við bjóðum grænu orkuna okkar á samkeppnishæfu verði. Það er gott að fá það staðfest af sérfróðum, óháðum aðila,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Í helstu niðurstöðum úttektarinnar kemur fram að raforkuverð á Íslandi sé misjafnt eftir iðnaði og einstaka samningum, en standi ekki samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar fyrir þrifum. „Við höfum lagt okkur fram um náið samstarf við viðskiptavini okkar og erum ávallt reiðubúin að skoða hvaða leiðir eru færar til að ná hagstæðri niðurstöðu fyrir báða aðila,“ segir Hörður. „Landsvirkjun hefur verið falið það hlutverk að hámarka verðmæti þeirrar auðlindar sem okkur er treyst fyrir. Á síðustu árum höfum við lagt mikla vinnu í að endursemja við flesta okkar eldri viðskiptavina um hærra raforkuverð með það að markmiði að fá sambærilegt verð og viðskiptavinir okkar greiða í öðrum löndum. Úttekt Fraunhofer staðfestir að verð okkar er áfram samkeppnisfært. En við verðum líka að taka með í reikninginn að aðstæður á mörkuðum viðskiptavina okkur eru mjög erfiðar um þessar mundir, bæði til skamms tíma vegna heimsfaraldurs og til lengri tíma vegna erfiðrar samkeppni frá Kína. Við reynum að leggja okkar af mörkum með því að sýna sveigjanleika m.a. í verði og styðja þannig við rekstur þeirra við þessar krefjandi aðstæður. Það er hins vegar gott að fá staðfestingu á því að verðstefna okkar hafi ekki neikvæð áhrif á samkeppnishæfni viðskiptavina okkar á stórnotendamarkaði. Ég er líka sannfærður um að endurnýjanlega orkan gefur okkur samkeppnisforskot til framtíðar, nú þegar sífellt fleiri leita umhverfisvænna leiða í orkumálum.“

Álver orkufrekari hér, gagnaver hagstæðari

Í niðurstöðunum kemur fram, að álver hér á landi þurfi meiri orku en ella til framleiðslunnar, þar sem þau búi ekki yfir allra nýjasta búnaði og tækni. Tekin eru dæmi af álverum í Noregi, sem hafa náð að lækka orkunotkun sína umtalsvert á hvert framleitt tonn. Hörður segir áhyggjuefni að sama þróun hafi ekki orðið á Íslandi.

Þá segir í skýrslunni að álver hér á landi séu í heildina yfir meðallagi á heimsvísu, þegar litið er til orkunotkunar við framleiðslu, en sum þeirra séu reyndar nálægt meðallagi. Þessu sé öfugt farið með gagnaverin, sem þurfi ekki jafn mikla orku til starfsemi sinnar og almennt gildi í Evrópu og sum þeirra séu jafnvel í hópi gagnavera með besta orkunýtingu. Þetta megi rekja til kalda loftslagsins á Íslandi, sem dragi verulega úr þörf á orku til kælingar.

Fyrsta óháða úttektin

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákvað í febrúar sl. að fá þýska fyrirtækið Fraunhofer til að gera úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með sérstakri áherslu á raforkukostnað. Fram kom að slík óháð úttekt stjórnvalda á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi hefði ekki farið fram áður. Brýnt væri að fara yfir þessi mál. Umræða hefði farið vaxandi um alþjóðlega samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi og þá sérstaklega með vísan til raforkukostnaðar, bæði hvað varðar framleiðslu og flutning raforku enda raforkukostnaður stór hluti af rekstrarkostnaði stórnotenda raforku. „Hafa í þeirri umræðu ýmsar tölur og upplýsingar verið settar fram sem ber nokkuð á milli varðandi hver er í raun samkeppnisstaða stóriðju á Íslandi, í samanburði við nágrannalönd. Í ljósi mikilvægis stóriðju og raforkusölu í íslensku efnahagslífi er brýnt að fara vel yfir þessi mál og fá fram óháða greiningu sérfróðs aðila á samkeppnishæfni stóriðju, með sérstakri áherslu á raforkukostnað,“ sagði í frétt ráðuneytisins þegar fyrirhuguð úttekt var kynnt.

Fraunhofer hefur m.a. gert samskonar úttektir fyrir Þýskaland og Noreg, á alþjóðlegri samkeppnishæfni stóriðju þar í landi með sérstakri áherslu á raforkukostnað. Samanburðarlöndin í úttektinni fyrir íslensk stjórnvöld voru Noregur, Kanada og Þýskaland.

Landsvirkjun vildi birta upplýsingar

Í frétt atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram, að vandasamt sé að birta niðurstöðurnar á þann hátt að þær varpi nýju og skýru ljósi á álitaefnið án þess að brjóta gegn trúnaðarákvæðum orkusamninga. Haft hafi verið samráð við alla aðila um framsetningu niðurstaðna. Fram hafi komið athugasemdir um fyrirhugaða framsetningu á orkukostnaði álvera og verið tekið tillit til þeirra.

Rétt er að taka fram í þessu sambandi að af hálfu Landsvirkjunar var vilji til að opinbera þær upplýsingar.