Frétt

Rafræn ársskýrsla Landsvirkjunar 2014 vinnur verðlaun

6. október 2015

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014 hlaut nýverið Grand Awards fyrir hönnun og grafík í ARC Awards, alþjóðlegri samkeppni um bestu prentuðu og rafrænu ársskýrslurnar. Ársskýrsla fyrirtækisins hlaut einnig tvenn gullverðlaun, ein bronsverðlaun og ein heiðursverðlaun í fjórum flokkum keppninnar.

Skaraði fram úr í yfirflokknum hönnun og grafík

Grand Awards voru veitt þeim keppendum sem þóttu skara fram úr öllum innsendingum í sínum yfirflokki. Landsvirkjun hlaut Grand Awards fyrir hönnun og grafík og þótti bera af keppinautum í alls átta undirflokkum. Má þar nefna fyrirtæki á borð við þýska ferðarisann Rewe Group, alþjóðlega fjölmiðlafyrirtækið Thomson Reauters Corporation, asíska orkufyrirtækið CLP Group og Resolute Forest Products frá Kanada.

Tvenn gullverðlaun, ein bronsverðlaun og ein heiðursverðlaun

Landsvirkjun hlaut gullverðlaun annarsvegar fyrir hönnun og grafík í flokknum Rafrænar ársskýrslur orkufyrirtækja og hinsvegar fyrir ljósmynda- og hreyfimyndanotkun í almennum flokki rafrænna ársskýrslna. Í flokknum Rafrænar ársskýrslur orkufyrirtækja fékk skýrsla Landsvirkjunar einnig bronsverðlaun fyrir forsíðu og sérstök heiðursverðlaun fyrir gagnvirka skýrslu.

Innsendingar eru metnar með stigagjöf og því ekki alltaf veitt verðlaun fyrir öll sæti. Til að mynda hlaut Landsvirkjun eitt fyrirtækja verðlaun fyrir hönnun og grafík annarsvegar og forsíðu ársskýrslu hinsvegar í flokknum Rafrænar ársskýrslur orkufyrirtækja. Í öðrum flokkum skipuðu fyrirtæki á borð við bandaríska olíu- og gasfyrirtækið Denbury, bandaríska sjúkratryggingafélagið Aetna, kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei og bandaríska fjarskiptafyrirtækið Verizon verðlaunasæti ásamt Landsvirkjun.

Um ARC Awards

ARC Awards hafa verið veitt í hátt í 30 ár fyrir yfirburða vinnubrögð við gerð prentaðra og rafrænna ársskýrslna. Í ár bárust yfir tvö þúsund tilnefningar frá 35 löndum. Dómnefnd er skipuð stjórnendum stórfyrirtækja um allan heim, jafnt sem viðurkenndum hönnuðum, textahöfundum og ljósmyndurum. Sjá nánar um ARC Awards.

Rafrænar árs- og umhverfisskýrslur Landsvirkjunar

Árs- og umhverfisskýrslur Landsvirkjunar voru í fyrsta sinn eingöngu gefnar út á rafrænu formi fyrir árið 2013. Markmiðið er að auka aðgengi almennings að árlegu uppgjöri fyrirtækisins og stuðla að virkri upplýsingagjöf um starfsemi þess.

Alls heimsóttu yfir 7.500 lesendur skýrsluna á síðasta ári og voru síðuflettingar yfir 38 þúsund talsins. Hlaut ársskýrslan 2013 einnig fjölda tilnefninga og verðalauna bæði hér á landi og erlendis. Hingað til hafa tæplega 3.000 lesendur heimsótt ársskýrslu Landsvirkjunar 2014 og eru síðuflettingar það sem af er árinu 12.900

Ársskýrsla Landsvirkjunar bæði 2013 og 2014 er unnin í samvinnu við Jónsson & Le’macks auglýsingastofu og Skapalón vefstofu.

Nánar má kynna sér ársskýrslu Landsvirkjunar hér: Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014

Fréttasafn Prenta