Frétt

Rafræn matsskýrsla tilnefnd til virtra alþjóðlegra verðlauna

2. september 2016

Rafræn matsskýrsla Búrfellslundar hefur verið tilnefnd til Íslensku vefverðlaunanna og er nú tilnefnd til verðlauna í hinni alþjóðlegu og virtu Digital Communication Awards keppni í tveimur flokkum, annars vegar flokknum stafræn framsetning gagna og upplýsingahönnun og hins vegar í flokki skýrslna. Ársskýrsla Landsvirkjunar var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir tveimur árum í flokki ársskýrslna. Verðlaunin verða afhent 29. september í Berlín.

Digital Communication Awards er alþjóðleg keppni sem verðlaunar það besta úr heimi rafrænnar miðlunar og samskipta. Verðlaun eru veitt í 35 flokkum, allt frá verkefnum á samfélagsmiðlum til stærri rafrænna útgáfna. Í dómnefnd sitja yfir 40 sérfræðingar og háskólamenn sem leitast við að skoða alla þætti rafrænna miðlunarverkefna og verðlauna þau sem skarað hafa fram úr í hverjum flokki.

Vindorka er nýr orkukostur á Íslandi og er umhverfismat Búrfellslundar því hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Þess vegna vildum við kynna það með nýjum og nútímalegum hætti til að auðvelda hagsmunaaðilum, fagstofnunum og almenningi að kynna sér verkefnið á stigi þar sem enn er hægt að hafa áhrif á framgang þess. Til viðbótar við hina hefðbundnu skýrslu var útbúin samantekt á mannamáli (non-tech report) og þróuð framsetning á kortum á vefformi til að auðvelda almenningi að kynna sér verkefnið á netinu.

Margrét Arnardóttir verkefnisstjóri vindorku og Jóna Bjarnadóttir umhverfisstjórnunarfræðingur stýrðu verkefninu en ráðgjafar voru Jón Cleon Sigurðsson, samskiptasvið Landsvirkjunar, verkfræðistofan Mannvit, Skapalón vefstofa og Jónsson & Le‘macks auglýsingastofa. Mikil ánægja var með þetta framtak meðal umsagnaraðila verkefnisins og almennings. Auk þess hefur skýrslan og framsetningin vakið athygli fagfólks í umhverfisgeiranum og fagfélögum vefiðnaðarinns hér á landi.

Rafræna matsskýrslu Búrfellslundar er að finna hér: http://burfellslundur.landsvirkjun.is/

Fréttasafn Prenta