Frétt

Rafræn skýrsla um Búrfellslund tilnefnd til Íslensku vefverðlaunanna

27. janúar 2016

Rafrænt umhverfismat á Búrfellslundi hefur hlotið tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna, sem veitt verða þann 29. febrúar í Gamla bíói.

Tilnefnd í flokknum Opinberir vefir

Átta manna dómnefnd skipuð sérfræðingum í vefmálum, ásamt tveim varamönnum, mátu hátt á annað hundrað verkefna sem send voru inn og úrslit liggja nú fyrir. Veitt verða verðlaun í 15 flokkum, en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vefiðnaðurinn á Íslandi kemur að.

Búrfellslundur er tilnefndur í flokknum Opinberir vefir, en veitt eru verðlaun fyrir besta íslenska vefinn, besta hönnun og viðmót, val fólksins og frumlegasta vefinn.

Ný leið í samskiptum

Rafrænt umhverfismat Búrfellslundar er ný leið í samskiptum með það að markmiði að auðvelda hagsmunaaðilum að kynna sér málið á aðgengilegan og sjónrænan hátt. Umhverfismatið er byggt upp sem heimasíða en uppbygging hennar byggir á frummatsskýrslu umhverfismatsins. Texti síðunnar byggist á svokallaðri „non tech report“ en mikið er lagt upp úr því að síðan sé auðskilin leikmönnum jafnt sem lærðum.

2.898 einstakar IP tölur (einstakar tölvur) og 10.000 síðuflettingar voru á síðunni árið 2015 en meðaltími heimsókna var 3 mínútur.

Samstarfsaðilar Landsvirkjunar í verkefninu voru auglýsingastofan Jónsson og Le´Macks, vefstofan Skapalón og verkfræðistofan Mannvit.

Fréttasafn Prenta