Frétt

Rafræn umhverfisskýrsla Landsvirkjunar er komin út

23. september 2014

Umhverfisskýrsla Landsvirkjunar fyrir árið 2013 er komin út og er í fyrsta skipti eingöngu gefin út á rafrænu formi. Skýrslan í ár er sú umfangsmesta sem fyrirtækið hefur gefið út enda bíður rafræn framsetning gagna upp á víðtæka möguleika þar um. Markmið rafrænnar útgáfu er að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem snúa að umhverfismálum fyrirtækisins.

Skýrslan hefur verið gefin út árlega frá árinu 2006 en lögð er áhersla á heiðarlega og opinskáa framsetningu gagna um árangur fyrirtækisins í umhverfismálum. Útgáfa skýrslunnar er liður í að kynna stefnu og árangur Landsvirkjunar í umhverfismálum á opinberum vettvangi. Með opnum og gagnsæjum samskiptum vill Landsvirkjun stuðla að málefnalegri umræðu um alla þætti í starfsemi fyrirtækisins.

Skýrsluna má nálgast á vef Landsvirkjunar með því að smella hér.

Úr samantekt umhverfisskýrslu Landsvirkjunar 2013:

Umhverfi

  • Óháð úttekt á Blöndustöð samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbæra nýtingu vatnsafls skilaði afar góðri niðurstöðu en í 15 af 17 flokkum uppfyllti stöðin bestu mögulegu starfsvenjur. 

  • Markmið Landsvirkjunar er starfsemi án umhverfisatvika. Árið 2013 kom upp eitt umhverfisatvik en  á Þeistareykjasvæðinu láku um 50 lítrar af olíu frá veghefli verktaka niður í vegstæðið. Engin hætta skapaðist á mengun grunnvatns eða yfirborðsvatns.

  • 3.067 þúsund tonnum af skiljuvatni var dælt aftur niður í jarðhitageyminn sem stuðlar að betri nýtingu kerfisins og minnkar umhverfisáhrif á yfirborði.

  • Losun gróðurhúsalofttegunda dróst saman milli ára en heildarlosun frá starfsemi Landsvirkjunar 2013 var um 49 þúsund tonn CO2-ígilda. Losunin var 12% lægri en árið 2012 og 20% lægri en árið 2009.

  • Bætt var við brennisteinsvetnis mælum í Reykjahlíð á árinu en magn þess var innan skilgreindra heilsuverndarmarka árið 2013.

  • Árið 2013 fóru 276 tonn af úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar en tæp 35 tonn til förgunar. Tæpum 6 tonnum af spillefnum var komið til förgunar.

Lífríki

  • Fækkun bleikju í Lagarfljóti hefur verið nær samfelld frá árinu 1998 og hófst því áður en Fljótsdalsstöð tók til starfa. Mælingar sýna ekki fram á fækkun í urriðastofninum. Stærð fiska í Lagarfljóti hefur dregist saman og almennt virðast fiskarnir í verri holdum. Raunveruleg áhrif virkjanaframkvæmda eiga þó eftir að koma fram á næstu árum.

  • Þéttleiki laxaseiða á fyrsta og öðru ári ofan við fiskistigann við Búðafoss í Þjórsá var sá mesti sem þar hefur mælst. Er það til vitnis um aukið landnám laxa og nýliðun ofan stigans.

  • Hávellum á Lagarfljóti fór fækkandi frá árinu 2005 til ársins 2012 en fjölgaði aftur árið 2013.

Fréttasafn Prenta