Frétt

Ragna Sara Jónsdóttir ráðin forstöðumaður samfélagsábyrgðar

8. nóvember 2012

Nýr forstöðumaður samfélagsábyrgðar tekur til starfa við áramót en innleiðing á stefnu Landsvirkjunar um samfélagsábyrgð verður sérstakt forgangsverkefni hjá fyrirtækinu árið 2013. Ragna Sara Jónsdóttir, sem gegnt hefur starfi yfirmanns samskiptasviðs Landsvirkjunar, verður forstöðumaður samfélagsábyrgðar.

„Landsvirkjun hefur sett sér metnaðarfulla stefnu um samfélagsábyrgð. Mikil tækifæri felast í því fyrir Landsvirkjun að innleiða og uppfylla þessa stefnu og getur hún skilað okkur betri samkeppnisstöðu fyrirtækisins, aukið starfsánægju og dregið úr kostnaði ef vel tekst til“, segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Ragna Sara hefur verið yfirmaður samskiptasviðs Landsvirkjunar frá árinu 2010. Ragna Sara er MSc í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og BA í mannfræði frá Háskóla Íslands. Ragna hefur starfað sem ráðgjafi hjá Nordic Business and Development meðal annars við innleiðingu umhverfis- og samfélagsstefnu í fyrirtækjum. Einnig stýrði Ragna verkefninu Nordic Business Outreach fyrir Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) og utanríkisráðuneytið en áður gegndi hún starfi viðskiptafulltrúa í sendiráði Íslands í Danmörku. Ragna starfaði við fjölmiðlun á árunum 1998-2006, bæði sem blaðamaður á Morgunblaðinu og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu. Hún hlaut árið 1999 verðlaun umhverfisráðherra fyrir greinarnar Landið og orkan sem birtar voru í Morgunblaðinu.

Fréttasafn Prenta