Frétt

Rannsóknir á orku og umhverfi kynntar á fundi Orkurannsóknarsjóðs

5. desember 2013

Á opnum kynningarfundi sem haldinn var í Þjóðminjasafninu þann 28. nóvember voru flutt átta erindi þar sem styrkþegar kynntu rannsóknarverkefni sín auk þess sem sjö aðrir kynntu verkefni sín á veggspjöldum.

Orkurannsóknarsjóður Landsvirkjunar styrkir margvíslegar rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála. Sjóðurinn tók til starfa á árinu 2007 en til tilgangur hans er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsmenn til að velja sér viðfangsefni á þessu sviði og gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri.

Á þeim 6 árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur hann veitt 30 styrki til doktorsnáms og 59 styrki til meistaranáms. Sjóðurinn hefur einnig veitt 128 styrki til rannsóknarverkefna.

Næstu úthlutunar sjóðsins er að vænta í febrúar 2014 og má nálgast nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð hér.

Auk Orkurannsóknarsjóðs styður Landsvirkjun við starfsemi háskóla með nýlegum samstarfssamningum við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Tilgangur alls þessa er að efla flæði upplýsinga og þekkingar í báðar áttir og bæta skilyrði til að ný þekking skapist. Markmiðið er að efla rannsóknarstarf og fræðasvið þar sem þörf er á námi og rannsóknum og skapa sameiginlegt virði fyrir Landsvirkjun, háskólana og íslenskt samfélag.

Mynd í hærri upplausn

Fréttasafn Prenta